„Misvísandi uppgjör voru forsenda þess að bankakerfið margfaldaðist að stærð á stuttum tíma og féll m.a. vegna þess að eigið fé var ekki raunverulegt heldur búið til með bókhaldsbrellum og bankanir of stórir til þess að ríkið gæti komið þeim til bjargar. Það er því fyrirsjáanlegt að sömu aðilar komi sumir aftur til sögunnar, ráði sömu endurskoðendur sem fyrr og reynir þá mikið á fjármálaeftirlit.“
Þetta segir Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag, þar sem hann fjallar meðal annars um fyrirhugaða sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Einnig er fjallað um ýmsar hættur á fjármálamarkaði, og hvernig þær séu farnar að birtast þessi misserin. Í greininni segir meðal annars:
„Um þessar mundir eru ýmsir af þeim einstaklingum sem tóku virkan þátt í fjármálaævintýrinu 2003-2008 að snúa aftur til landsins. Peningum var í mörgum tilvikum komið undan árin 2007-2008 og eru þetta fjármagn nú að skila sér til baka, einmitt þegar búið er að gera upp þrotabú hinna föllnu banka upp. Líklegt er að a.m.k. einn öflugur banki verði í eigu þessara aðila innan ekki langs tíma ef það hefur ekki gerst nú þegar. Vandinn er sá að rekstur bankanna fyrir 2008 var ámælisverður eins og margir refsidómar bera vitni um. Ekki eru öll kurl komin til grafar um þann rekstur. Endurskoðendur gegndu lykilhlutverki í því að láta bókfært eigið fé margfaldast á fáum árum en hafa ekki sýnt neina iðrun í þeim efnum. Misvísandi uppgjör voru forsenda þess að bankakerfið margfaldaðist að stærð á stuttum tíma og féll m.a. vegna þess að eigið fé var ekki raunverulegt heldur búið til með bókhaldsbrellum og bankanir of stórir til þess að ríkið gæti komið þeim til bjargar. Það er því fyrirsjáanlegt að sömu aðilar komi sumir aftur til sögunnar, ráði sömu endurskoðendur sem fyrr og reynir þá mikið á fjármálaeftirlit. Ef þessir aðilar tengjast stjórnmálaflokkum þá mun reyna á sjálfstæði fjármálaeftirlits bæði í samskiptum við bankana og einnig við ríkisstjórn. Þá væri betra að peningastefnan væri ekki undir sama þaki.“
Þá fjallar Gylfi einnig um ýmsar hættur sem geta falist í því að sameina Seðlabankann og FME. Hin sameinaða stofnun verði verulega valdamikil, og það geti skapað hættur.
Þá sé sanngjarnt að spyrja að því hvers vegna þarf að umbreyta kerfinu með þeim hætti sem að er stefnt, þar sem árangurinn á undanförnum árum hafi verið góður, ekki síst vegna þess hvernig stjórntækjum Seðlabankans hafi verið beitt.
„Á síðustu tíu árum hefur farið fram stöðug vinna við að endurskipuleggja framkvæmd peningastefnu með breyttum áherslum og breyttri nýtingu stjórntækja. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur tekist að kalla fram jákvæða þróun þar sem saman fara hagvöxtur, lág verðbólga, jákvæður viðskiptajöfnuður og batnandi staða gagnvart útlöndum og vaxandi kaupmáttur. Án efa hefur heppni ráðið einhverju en því verður ekki neitað að önnur beiting stjórntækja Seðlabankans árin 2009-2019 hefur skilað stórlega bættum árangri. Kannski gengur það að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil án þess að hagkerfið fari í gegnum dýfur með reglubundnum hætti, verðbólguskot og skertan kaupmátt!
En af hverju þarf þá að umbylta stjórnkerfinu á grundvelli tillagna sem urðu til fyrir misskilning með breytingum sem stefna þessum árangri í tvísýnu? Er ekki betra að taka fleiri og smærri skref, halda í það sem gott er og bæta smám saman þegar við erum alveg viss um að næsta skref sé til bóta? Og ekki gera ráð fyrir að embættismenn og stjórnmálamenn hugsi alltaf einungis um þjóðarhag en ekki eigin hagsmuni og sína pólitísku stöðu.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.