Samtök í samfloti iðnaðarmanna og Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir kjarasamning í Karphúsinu, húsnæði ríkissáttasemjara, á fyrsta tímanum í nótt. Sex félög og sambönd stóðu að samfloti iðnaðarmanna í þessum samningaviðræðum. Þau eru Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn, Grafía, Matvís, Félag hársnyrtisveina og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna. Um 13 þúsund félagsmenn eru í þessum samtökum.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að það sem væri einna stærst við samninganna sé að „okkur er að takast að hækka lægstu laun iðnaðarmanna sérstaklega, og styðja við bakið á þeim sem eru í hvað verstri stöðu. Okkur er að takast að stytta vinnutímann, og erum hér sennilega með meiri vinnutímastyttingum sem hafa sést um langan tíma.“
Hækkun taxta á samningstímanum nemur 90.000 krónum en almenn hækkun verður 68.000. Samningarnir gilda til 1. nóvember 2022.
Kristján sagði jafnframt að í lok samningstímans geta félagsmenn verið að sjá 36 klukkustunda vinnuviku með ákveðnum breytingum á vinnuskyldunni. „Við erum að taka upp breytt fyrirkomulag sem getur stuðlað að því að stytta heildarvinnutíma manna en jafnframt að tryggja þeim sem vinna hvað mest langan vinnudag, að tryggja þeim meiri verðmæti með breytingu á yfirvinnuálögum.“
Félagsmenn munu greiða atkvæði um samningana síðar í mánuðinum en niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður svo kynnt þann 22. maí næstkomandi.