Sætaframboð með flugi til Íslands dregst saman um 28 prósent, eftir fall WOW air, og þrátt fyrir kólnun og samdrátt í ferðaþjónustu, þá munu hótelherbergjum fjölga um átta prósent á þessu ári.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri skýrslu Íslandsbanka um stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu.
Eftir mikinn uppgang á undanförnu árum, þar sem fjöldi ferðamanna á ári fór úr um 450 þúsund árið 2010 í 2,3 milljónir í fyrra, er nú komin upp allt önnur staða.
Þrátt fyrir það, er gert ráð fyrir að ferðaþjónustan verði áfram í burðarhlutverki og standi undir um 36 prósentum af gjaldeyristekjum þjóðarbússins, en hún hefur verið í kringum 43 prósent.
Áætlað er að hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um átta prósent á árinu þrátt fyrir fyrirhugaða fækkun ferðamanna, að því er segir í skýrslunni. Nýtingarhlutfall hjá hótelum mun því fara versnandi.
Á síðasta ári var fjölgun ferðamanna, frá því árið á undan, að miklu leyti borin uppi af Bandaríkjamönnum. Þar munaði mikið um flug WOW air milli Íslands og Bandaríkjanna, en áfangastöðum í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.
Ferðamönnum fjölgaði um 121 þúsund í fyrra miðað við 2017, en samtals var fjölgun Bandaríkjamanna 118 þúsund.