Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í velferðarnefnd, hefur skilað minnihlutaáliti og leggst gegn því að frumvarp um þungunarrof verði samþykkt. Hann er eini stjórnarþingmaðurinn sem situr í nefndinni sem leggst gegn samþykkt frumvarpsins.
Í nefndaráliti Ásmundar segist hann vera þeirrar skoðunar að þegar líf sé myndað af tveimur einstaklingum þá sé „of langt gengið að annar einstaklingurinn hafi einn ákvörðunarvald um það hvort enda skuli meðgönguna. Þannig er mikil ábyrgð lögð á verðandi móður eina.“
Í áliti Ásmundar segir einnig að fóstureyðing eða þungunarrof hljóti alltaf að vera neyðarráðstöfun og að mati hans hljóti hún helst að koma til greina ef þungunin ógnar lífi eða heilsu hinnar verðandi móður eða ef ljóst þykir að fóstrið sé ekki lífvænlegt. Fremur en að tala um að rýmka rétt til fóstureyðinga væri okkur nær að finna leiðir til að hjálpa verðandi mæðrum í vanda að eignast börn sín.“
Verði leyft fram að 22. viku meðgöngu
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um þungunarrof í janúar síðastliðnum. Í frumvarpi Svandísar er lagt til að þungunarrof verði leyft fram að 22. viku meðgöngu og að einstaklingar þurfi ekki að gefa upp neinar ástæður fyrir þungunarrofinu.
Í greinargerð frumvarpsins sagði að ef frumvarpið verði að lögum sé um mikla breytingu að ræða sem ætluð er að tryggja konum sjálfsforræði yfir eigin líkama og eigin framtíð hvað barneignir varðar þannig að þær hafi öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu óski þær eftir þungunarrofi.
Meirihluti velferðarnefndar skilaði nefndaráliti á þriðjudag þar sem hann lagði til að frumvarpið yrði samþykkt með breytingum. Þær breytingar snúa þó ekki að því hversu lengi þungunarrof verður leyft. Meirihlutinn vill enn að heimild til þess verði fram á 22. viku meðgöngu.
Meirihlutinn samanstendur af þingmönnum sex flokka þar af öðrum fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni, Vilhjálmi Árnasyni, fulltrúa Framsóknarflokks, Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Ólafi Þór Gunnarssyni frá Vinstri grænum. Tveir nefndarmenn úr stjórnarandstöðu, nefndarformaðurinn Halldóra Mogensen frá Pírötum og Guðjón Brjánsson frá Samfylkingu, skrifa einnig undir álitið auk þess sem Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni fyrir hönd Viðreisnar, lýsir sig samþykka álitinu.
Þrír nefndarmenn á móti
Á móti eru hins vegar þrír þingmenn: frá þremur flokkum. Þ.e. stjórnarandstöðuflokkunum Miðflokki og Flokki fólksins og áðurnefndar Ásmundur Friðriksson frá Sjálfstæðisflokki.
Guðmundur Ingi Kristinsson, nefndarmaður Flokks fólksins, segir í sínu áliti að hann telji að miða eigi heimild til fóstureyðinga áfram við 12. vikur eins og er í gildandi lögum, nema „fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Það er almennt viðurkennt að í nær öllum tilvikum er konum fullkunnugt um þungun sína fyrir 12. viku meðgöngu og því ætti það að heyra til undantekninga ef konur geta ekki leitað þess úrræðis sem fóstureyðing er fyrir þann tíma. 3. minni hluti virðir að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama, en dregur að þessu leyti mörkin gagnvart lífsrétti hins ófædda barns.“
Anna Kolbrún Árnadóttir, nefndarmaður Miðflokksins, leggur áherslu á það í sínu minnihlutaáliti að „að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks bannar mismunun á grundvelli fötlunar. Með því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku sé ekki komið í veg fyrir mismunun í raun enda sé rökstuðningurinn fyrir því að heimila þungunarrof svo seint á meðgöngu að hægt verði að bregðast við þegar fötlun kemur í ljós við 20 vikna fósturskimun. Telur 1. minni hluti þá leið sem farin er í frumvarpinu ekki fela í sér afnám mismununar í raun.“
Hún felst heldur ekki á það sjónarmið að með því að heimila þungunarrof til loka 22. viku muni konur í erfiðum félagslegum aðstæðum njóta meiri verndar. „Telur 1. minni hluti að enn verði hægt að bregðast við aðstæðum þeirra kvenna fyrir lok 18. viku og að fjöldi kvenna sem fer í þungunarrof muni ekki breytast með því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku.“