Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur fallist á tillögu ráðgjafanefndar um inn- og útflutning að fella niður innflutningsvernd á kartöflum á tímabilinu 3. maí til 11. ágúst 2019 þar sem framboð á kartöflum þykir ekki nægjanlegt. Þetta kemur fram í frétt ráðuneytisins.
Í byrjun apríl barst ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara tilkynning um skort á kartöflum. Í kjölfarið var leitað upplýsinga hjá bæði framleiðendum og dreifingaraðilum kartaflna.
Samkvæmt ráðuneytinu var fylgst grannt með stöðu mála og nýverið lagði nefndin til við ráðherra að verndin yrði felld niður á fyrrgreindu tímabili.
Þess má geta að á innfluttar kartöflur leggst allajafna 30 prósent verðtollur og auk þess 60 króna magntollur á kíló.
Kartöfluskorts var tekið að gæta í verslunum í apríl en lítið sem ekkert framboð er af innlendum kartöflum af viðunandi gæðum. Samkvæmt frétt FA frá 17. apríl síðastliðnum hafði atvinnuvegaráðuneytið ekki orðið við beiðnum innflytjenda um að afnema tolla á kartöflum vegna ónógs framboðs. Sú neitun hefði komið niður á hagsmunum neytenda, enda töldu samtökin að innfluttar kartöflur yrðu þá dýrari en þær ættu með réttu að vera.
Samkvæmt upplýsingum, sem Félag atvinnurekenda aflaði sér í apríl, var nánast ekkert til í landinu af innlendum kartöflum í söluhæfum gæðum. Innflutningsfyrirtæki hefðu frá því um miðjan apríl ýtt á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að bregðast við en það er á valdi ráðherra að lækka tolla á innflutningi við þessar aðstæður. Stærsti birgi innlendra kartaflna, Sölufélag garðyrkjumanna, hefði hvatt ráðuneytið til að afnema tollana þannig að hægt yrði að flytja inn kartöflur á hagstæðu verði fyrir neytendur. Um væri að ræða venjulegar matarkartöflur af stærðinni 3,5 til 5,5 sentímetrar.