Heildartekjur Icelandair námu 248,6 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem rúmlega 30 milljörðum króna, og lækkuðu tekjurnar um sjö prósent á milli ára. Eiginfjárhlutfallið lækkaði um níu prósentustig á ársfjórðungnum, fór úr 32 prósent í lok ársins í 23 prósent.
Tap félagsins á ársfjórðungnum var 55,1 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6,7 milljörðum króna. Á síðustu sex mánuðum hefur félagið því tapað 13,5 milljörðum króna, en tapið á síðasta fjórðungi ársins í fyrra nam 6,8 milljörðum króna.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu að krefjandi aðstæður hafi verið á mörkuðum, ekki síst vegna samkeppni við félög sem hafi verið ósjálfbær verð á farmiðum. Líklegt er að hann eigi þar við WOW air, en eins og kunnugt er þá er félagið farið á hausinn og er í slitameðferð þessi misserin. „Farþegum félagsins til Íslands fjölgaði um 13% á fyrsta ársfjórðungi, farþegum frá Íslandi um 10% en farþegum milli Evrópu og N-Ameríku fækkaði um 2%. Rekstur félagsins var hins vegar krefjandi eins og við bjuggumst við og var rekstrarniðurstaðan í takt við áætlanir. Þróun fargjalda var neikvæð milli ára, sem skýrist meðal annars af mikilli samkeppni við flugrekendur sem boðið hafa upp á ósjálfbær fargjöld. Jafnframt var áframhaldandi þrýstingur á fargjöld milli Evrópu og N-Ameríku. Innleiðingar- og þjálfunarkostnaður vegna sex nýrra flugvéla sem félagið hafði gert ráð fyrir að taka í notkun hafði neikvæð áhrif auk þess sem einskiptiskostnaður féll til vegna kyrrsetningar B737 MAX flugvéla,“ segir í tilkynningunni.
Bogi Nils ítrekar enn fremur, að langtímahorfur félagsins - og íslenskrar ferðaþjónustu - séu góðar. „Langtímahorfur félagsins eru góðar og með samstilltu átaki um mótun og innleiðingu heildstæðrar stefnu, er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt. Það er ánægjulegt að reynslumikill alþjóðlegur fjárfestir deili þessari framtíðarsýn með okkur en kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital Management á 11,5% hlut í félaginu fyrir um 47 milljónir USD (rúma 5,6 milljarða) voru kynnt í apríl sl. Fjárfestingin mun efla félagið enn frekar og styrkja samkeppnishæfni þess til framtíðar.“
Markaðasvirði Icelandair var 43,5 milljarðar í lok dags, en eigið fé félagsins var tæplega 52 milljarðar í lok mars.