Sætaframboð Icelandair dregst saman um tvö prósent í sumar vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX-vélanna, samkvæmt tilkynningu sem félagið hefur sent frá sér.
Samkvæmt tilkynningunni er nú gert ráð fyrir að kyrrsetningin á vélunum, á alþjóðavísu, muni vara lengur en talið var í upphafi, en fyrri tilkynning Icelandair gerði ráð fyrir kyrrsetningu á vélunum til 16. júní.
Ekki liggur fyrir ennþá hversu langur tími mun líða þar til flugfélög geta notað vélarnar á nýjan leik, en Boeing hefur sagt að unnið sé að því að flýta allri vinnu eins og kostur er.
Kyrrsetninguna má rekja til tveggja hörmulegra flugslysa í Indónesíu og Eþíópíu, þar sem allir um borð í tveimur 737 Max vélum létust, samtals 346. Lokaniðurstöður rannsókn á slysunum liggja ekki fyrir, en spjótin hafa beinst að MCAS-kerfi í vélunum, sem á að sporna gegn ofrisi vélanna.
Icelandair hefur leigt þrjár vélar sem verða í rekstri fram að 1. október á þessu ári. „Um er að ræða tvær 262 sæta Boeing 767 breiðþotur og eina Boeing 757-200 vél sem er 184 sæta. Til samanburðar taka Boeing 737 MAX vélarnar 160-178 farþega í sæti [...] Vinna varðandi þessar breytingar mun hefjast eftir helgi og munu þjónustufulltrúar Icelandair hafa samband við viðkomandi farþega.“
Ekki liggur fyrir enn hversu mikið höggið verður fyrir Icelandair, vegna þessa, en Bogi Nils Bogason, forstjóri, hefur sagt að félagið muni reyna að fá skaðann af kyrrsetningunni bættan frá Boeing.