Þetta eru lausnir á ákveðnum ferlum sem þessi tæki ráða við. Það kemur hins vegar ekkert í staðinn fyrir mannlega dómgreind. Hana þarf að efla. Hún verður alltaf mikilvægari þáttur í störfum fólks.“
Þetta sagði Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og formaður starfshóps forsætisráðherra sem vann skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Viðtalið birtist í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni þar sem þeir ræddu fjórðu iðnbyltinguna, þróun gervigreindar, sjálfvirknivæðingu og breyttar áherslur á færni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Aðspurður hvort að það sé langt í það að fólk muni fara að sjá marktækan mun á til að mynda starfasamsetningu vegna áhrifa af fjórðu iðnbyltingunni sagði Huginn ekki svo vera. „Þetta mun gerast mjög hratt eftir því sem gervigreindin þróast áfram.“
Áhrifin séu þegar farin að eiga sér stað. Sýnilegasta dæmið fyrir margt venjulegt fólk sé til að mynda sjálfsafgreiðslukassar í matvöruverslunum, sem hefur fjölgað hratt á skömmum tíma hérlendis. Hraðasta þróunin á Íslandi hafi hins vegar átt sér stað í sjávarútvegi.
Eftir nokkur ári mun sjálfvirknivæðingin gerast hraðar og þá muni fólk fara að verða meira vart við hana í nærumhverfi sínu.
Huginn lagði þó áherslu á að það væri hlutir sem ekki væri hægt að sjálfvirknivæða. Hlutir sem snúi að okkur sem mönnum. Gervigreindin muni ekki koma í staðinn fyrir þá hluti en til að mæta breytingunum þurfi að innleiða aðrar áherslur á færni í menntakerfið okkar.
Annars vegar þurfi fleiri Íslendingar að skila sér í gegnum vísinda- og tæknimenntum, þar sem Ísland er aftarlega á merinni í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar þurfi að hugsa hið almenna menntakerfi út frá þáttum sem styrkja mennskuna. „Hluti eins og gagnrýna hugsun, tilfinningagreind, mannleg samskipti.“