„Til þess að svona breytingar verði farsælar fyrir samfélag þarf að ríkja samfélagssátt. Hluti af samfélagssáttinni er að allir borgararnir skynji ábatann af því að ganga í gegnum þessar tæknibreytingar.“
Þetta sagði Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og formaður starfshóps forsætisráðherra sem vann skýrslu um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Viðtalið birtist í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr því hér að neðan.
Það þurfi að ríkja sátt í samfélaginu um þá þróun sem sé framundan, þ.e. tækniframþróun og aukin sjálfvirkni með fjórðu iðnbyltingunni, annars geti hún leitt af sér mikil vandamál. Ef að fólk upplifir það þannig að það sé skilið eftir en samfélagið sem það býr í er allt orðið markað af þessum breytingum, þá verður ekki sátt um þessar breytingar. Þess vegna þarf að huga sérstaklega að dreifingu gæðanna.“
Huginn sagði að hægt væri að læra af afleiðingum þeirra breytinga sem orðið hafa til dæmis með síðustu iðnbyltingu, þar sem fjöldi starfa úreltist og ekki var tekið nægilega vel á samfélagslegum hliðarverkunum þess. Afleiðingin sé til dæmis sú mikla óánægja með stjórnmál sem birtist víða um heim í dag. „Það veikir lýðræðið og opna umræðu ef fólk upplifir að það sé skilið eftir.“