Icelandair tapaði 6,7 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða sem nemur rúmlega 55 milljónum Bandaríkjadala.
Útkoman var lakari en spár greinenda á markaði höfðu gert ráð fyrir. Greinendur Landsbankans og Arion banka höfðu gert ráð fyrir tapi upp á um 52 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 6,3 milljarða tapi, en hjá IFS hafði verið gert ráð fyrir 5,5 milljarða tapi.
Á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur félagið tapað 13,5 milljörðum króna, og segir Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, að rekstrarumhverfið hafi verið erfitt undanfarin misseri, ekki síst vegna þess að samkeppnisaðilar hafi verið selja farmiða á ósjálfbærum verðum.
Er þar vafalítið átt við WOW air, sem er farið í gjaldþrot, en markaðshlutdeild þess var rúmlega 35 prósent í ferðum til og frá Íslandi þegar mest var.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi til kauphallar, vegna uppgjörsins, í gær, segir að þrátt fyrir erfiða stöðu séu langtímahorfur félagsins og íslenskrar ferðaþjónustu góðar.
Kyrrsetning á 737 Max vélum Boeing, eftir tvö mannskæð flugslys í Indónesíu og Eþíópíu, þar sem samtals 346 létu lífið, er að reynast Icelandair dýr. Félagið þarf að skera niður tvö prósent af sætaframboði sínu í sumar, vegna þessa, en þrjár vélar félagsins eru kyrrsettar vegna alþjóðlegs banns við notkun á vélunum.
Heildartekjur Icelandair námu 248,6 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem rúmlega 30 milljörðum króna, og lækkuðu tekjurnar um sjö prósent á milli ára. Eiginfjárhlutfallið lækkaði um níu prósentustig á ársfjórðungnum, fór úr 32 prósent í lok ársins í 23 prósent.
Árétting: Upphaflega stóð að Capacent hafi spáð, en IFS er hið rétta. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.