Air Lease Corporation (ALC) eigandi farþegaþotunnar TF-GPA, sem Isavia kyrrsetti vegna vangoldinna lendingargjalda hins gjaldþrota WOW air, hefur lagt fram nýja aðfararbeiðni hjá Héraðsdómi Reykjaness.
Í nýju beiðninni er þess krafist að ALC fái full umráð þotunnar, enda sé búið að greiða þau gjöld sem tengjast þotunni beint, að því er segir í tilkynningu frá ALC.
Í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp 2. maí, segir að Isavia hafi verið „heimilt að hamla för flugvélarinnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli á meðan gjöld tengd þeirri flugvél eru ógreidd en ekki vegna ógreiddra annarra gjalda WOW air hf.“
„Forsendur úrskurðarins geta því ekki verið mikið skýrari. ALC ákvað að greiða þau gjöld sem tengjast notkun TF-GPA í samræmi við þær og fá í kjölfarið full og ótakmörkuð umráð þotunnar,“ segir í tilkynningu frá ALC.
Eins og fram hefur komið þá ætlar Isavia að kæra fyrri úrskurð Héraðsdóm Reykjaness, meðal annars á þeirri forsendu að ef niðurstaðan verður endanlega, þá geti grunnur fyrir gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli breyst með víðtækum afleiðingum.
Samkvæmt úrskurðinum þá var heimilt að kyrrsetja vélina, en skuld ALC var 87 milljónir á meðan lendingargjaldaskuld WOW air var um tveir milljarðar.
„Forsvarsmenn ALC telja sig þar með hafa greitt allt það sem Isavia getur mögulega notað sem ástæðu til þess að stöðva brottför vélarinnar. Úrskurður héraðsdóms hafnaði því að Isavia gæti krafið félagið um að greiða öll vangreidd notendagjöld
WOW air. Sú afstaða Isavia að þráast við er því í andstöðu við niðurstöðu héraðsdóms Reykjaness og er að mati ALC bæði óbilgjörn og með öllu ólögmæt. Af þeim sökum eru stjórnendur ALC tilneyddir að leita aftur til héraðsdóms til að knýja á um að Isavia fylgi
niðurstöðu dómstólsins. Kæra Isavia til Landsréttar kemur ekki í veg fyrir að ALC fari fram á nýjan úrskurð um afhendingu sem tekur tillit til þess að búið er að greiða allt sem tengist þotunni.
Staða málsins er breytt að því leyti. Isavia bar að afhenda farþegaþotuna strax og forsendum úrskurðarins hafði verið mætt. Í samskiptum við forsvarsmenn Isavia hafa lögmenn ALC ítrekað reynt að fá leiðbeiningar um möguleika sína á að leggja fram tryggingu, með fyrirvara um lögmæti. Því hefur í engu verið svarað. Það er alfarið á ábyrgð og áhættu Isavia að beita
stöðvunarákvæði loftferðalaga og þar af leiðandi þeirra að upplýsa um möguleika ALC til að leysa þotuna úr haldi. Því hefur Isavia í engu sinnt. Bendir ALC á að það tók meira en 4 vikur að fá upplýsingar um gjöld WOW air sundurliðað eftir farþegaþotum. Þegar
þau gögn voru loks afhent, þá voru þau með öllu óunnin. Það kom því í hlut ALC að greina gögnin til að komast að niðurstöðu um þau gjöld sem tengjast notkun TF-GPA beint,“ segir í tilkynningu frá ALC.