Meðal þess sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi við kollegga sinn frá Rússlandi, Sergei Lavrov, á fundi þeirra í Rovaniemi í Finnlandi í dag, var innflutningsbann Rússa sem meðal annars nær til sjávarafurða.
Innflutningsbannið hefur haft mikil áhrif, en Rússland hefur verið stór markaður fyrir sjávarafurðir á síðasta árum, fram að banni, meðal annars fyrir makríl.
Á fundinum voru tvíhliða samskipti Íslands og Rússlands til umræðu. Þar undir eru málefni norðurslóða og öryggismál í Evrópu, auk viðskiptamálaefna.
Fundurinn var haldinn í aðdraganda utanríkisráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem hefst á morgun.
Fundurinn markar tímamót fyrir íslenska utanríkisþjónustu, en þá mun Ísland taka við formennsku í ráðinu til tveggja ára og Rússland þar eftir.
Rædd voru viðskiptatækifæri á öðrum sviðum, líkt og sölu á þekkingu og búnaði til rússneskra sjávarútvegs- og matvælafyrirtækja sem hefur farið vaxandi, að því er segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
„Utanríkisráðherra tók upp mannréttindamál og stöðuna innan Evrópuráðsins þar sem uppi er ágreiningur við Rússland. Hvatti Guðlaugur Þór Rússland til áframhaldandi þátttöku í Evrópuráðinu, enda myndi brotthvarf þaðan fela í sér bakslag í mannréttindamálum í Rússlandi. Þá voru öryggismál í Evrópu rædd, þ.m.t. staðan í Úkraínu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Tekið er fram í tilkynningunni, að Íslandi muni ávallt standa vörð um alþjóðalög og virðingu fyrir mannréttindum, og sýna samstöðu með nágrannaríkjum og vinaþjóðum þegar reynir á sameiginleg gildi. „Það er jafnframt mikilvægt viðhalda samtali og freista þess að draga úr spennu, og sannarlega eiga Rússland og Ísland sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og langa sögu viðskiptatengsla. Því var mikilvægt að eiga orðastað við utanríkisráðherra Rússland um málefni sem við erum ýmist sammála eða ósammála um - og freista þess að horfa fram á veginn í samskiptum ríkjanna,“ sagði Guðlaugur Þór.