Norska vindorkufyrirtækið Zephyr hefur stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi, Zephyr Iceland. Fyrirtækið hyggst á næstunni verja verulegum fjármunum til rannsókna á vindaðstæðum á Íslandi. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að markmiðið sé að reisa hér á landi vindmyllur og vindmyllugarða og bjóða umhverfisvæna raforku á „hagkvæmu og samkeppnishæfu verði.“
Hafa fjárfest fyrir rúma 35 milljarða í Noregi
Fyrirtækið Zephyr er í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja, Glitre Energi, Vardar og Østfold
Energi. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Framkvæmdastjóri
Zephyr á Íslandi er Ketill Sigurjónsson, sem jafnframt er hluthafi í fyrirtækinu.
Í tilkynningunni segir að móðurfélag Zephyr hafi fjárfest fyrir meira en 35 milljarða íslenskra króna í vindafli í Noregi og hefur fyrirtækið þegar reist meira en 300 MW af vindafli þar. Fyrirtækið er nú að reisa þar nýjan 200 MW vindmyllugarð og verður því senn með um 500 MW af vindafli í rekstri. Það jafngildir raforkunotkun um 75 þúsund norskra heimila.
Vísbendingar um að íslensk vindorka geti keppt við vatnsafl og jarðvarma
Fyrirtækið segist hafa kannað íslenska raforkumarkaðinn ítarlega, ásamt viðeigandi löggjöf og stefnu stjórnvalda. Morten de la Forest, stjórnarformaður Zepher á Íslandi segir að fyrirtækið sjái áhugaverð tækifæri til nýtingar vindorku á Íslandi og að sterkar vísbendingar séu um að íslensk vindorka verði samkeppnishæf við bæði vatnsafl og jarðvarma.
„Ísland býr yfir geysilega góðum vindaðstæðum og jafnvel enn betri en eru í Noregi. Ég er afar ánægður með þá ákvörðun stjórnar Zephyr að Ísland verði fyrsti markaður okkar utan Noregs. Vindurinn á Íslandi, ásamt sveigjanleikanum sem íslenska vatnsaflskerfið býr yfir, skapar Íslandi óvenju gott tækifæri til að nýta vindorku með ennþá hagkvæmari hætti en í flestum öðrum löndum,“ segir Olav Rommetveit, forstjóri norska Zephyr og stjórnarformaður Zephyr á Íslandi í tilkynningunni.