Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að Ísland sé vel í stakk búið til að takast á við aukið frjálsræði á fjármálamarkaði, sem felur meðal annars í sér að stærri hluti banka verði í einkaeigu.
„Það verður að segjast eins og er að þessi áratugur sem við höfum verið í eftir áfallið hefur auðvitað verið óvenjulegur. Það er ekki kannski eðlilegt ástand eða fyrirkomulag að svona stór hluti af fjármálakerfinu sé í eigu ríkisins. Þannig að þetta er heilbrigð og eðlileg þróun að við séum farin að sjá þessar hreyfingar og að það sé áhugi á eignarhaldi í íslenskum fjármálafyrirtækjum.“
Þetta segir hún í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem er á dagskrá klukkan 21:00 í kvöld.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Unnur segir þar að búið sé að breyta gífurlega miklu í laga- og regluverki fjármálafyrirtækja frá því sem var fyrir hrun. Allur heimurinn hafi verið í mjög hraðri lærdómskúrfu til að fyrirbyggja að hlutir eins og síðasta stóra fjármálakreppa geti gerst aftur. Þá sé oft gagnrýnt að allur fókus sé á að fyrirbyggja áfall eins og varð síðast, þegar næsta áfall geti verið allt annars eðlis.
Hún nefnir nokkur atriði sem voru ráðandi í því að hrunið varð jafn afdrifaríkt haustið 2008, sem nú er búið að koma í veg fyrir að geti endurtekið sig með breytingum á lögum og reglum. „Það eru komnar þessar miklu eiginfjárkröfur sem að Fjármálaeftirlitið fylgir eftir og hefur valdheimildir til þess að gera kröfu um. Fyrir hrun var eiginfjárkrafan átta prósent. Núna er hún í kringum, og jafnvel yfir 20 prósent, og af meiri gæðum. Það eru takmarkanir varðandi til dæmis tengda aðila. Það var erfitt að sanna að það væri verið að taka mikla áhættu með tengda aðila. Núna er búið að snúa sönnunarbyrðinni við í íslenskum völdum.“