Íslandsbanki, sem er í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 2,6 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 2,1 milljarður.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri, segir í tilkynningu að staða bankans sé sterk. „Staða bankans er afar traust, lausafjárhlutföll í erlendum og innlendum gjaldmiðlum yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila og eiginfjárhlutföll í takt við langtímamarkmið. Lánasafnið er sterkt og koma gæði þess vel út í alþjóðlegum samanburði. Það gladdi mig hversu vel síðasta skuldabréfaboð bankans upp á 300 milljónir evra gekk á erlendum mörkuðum og það er ljóst að bankinn og íslenskt efnahagslíf njóta áframhaldandi trausts erlendra fjárfesta. Íslandsbanki hélt áfram að kynna nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini sína í byrjun árs 2019. Sem dæmi hafa lausnirnar „Lán í appi“ og „Velkomin í viðskipti“ hlotið frábærar viðtökur viðskiptavina og er bankinn rétt að byrja á þessari vegferð,“ segir Birna í tilkynningu.
Arðsemi eiginfjár var 5,9 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, en sama hlutfall var 4,8 prósent á sama tíma í fyrra.
Þá segir hún að ný stefna bankans hafi verið kynnt fyrir starfsfólki í lok mars, og spennandi sé að vinna áfram eftir henni inn í framtíðina. „Ný stefna bankans var kynnt fyrir starfsfólki í lok mars og var hún unnin með alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting Group. Ég er sannfærð um að ný stefna muni gera bankann enn betur í stakk búinn til að takast á við breyttan bankaheim og munum við leggja áherslu á innleiðingu hennar á næstunni. Framhaldið er spennandi fyrir okkur í Íslandsbanka þar sem við ætlum okkur að vera hreyfiafl til góðra verka og hafa jákvæð og uppbyggileg samfélagsáhrif en jafnframt halda áfram að veita viðskiptavinum okkar bestu bankaþjónustu á Íslandi,“ segir Birna í tilkynningu.
Útlán bankans námu 874 milljörðum í lok mars, en þau jukust um 3,2 prósent á fyrrnefndu tímabili.
Kostnaðarhlutfall samstæðu, það er rekstrarkostnaður sem hlutfall af tekjum, á tímabilinu var 62,6 prósent samanborið við 69,8 prósent á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 58,1 prósent. Langtímamarkmið bankans er að vera með kostnaðarhlutfall í kringum 55 prósent.