„Ef eitthvað slæmt kemur fyrir bankana viljum við að hluthafar axli byrðina, ekki skattgreiðendur.“
Þetta sagði Mervyn King lávarður, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, Seðlabanka Bretlands, í viðtali við Kastljósið á RÚV í kvöld.
Í viðtali við Kastljósið sagði King að hann teldi eftirlit með fjármálakerfum um allan heima hafa batnað, en hann sagðist óttast að of mikil áhersla sé lögð á það, að koma í veg fyrir að svipaðir atburðir og gerðust á árunum 2007 til 2009 myndu endurtaka sig. „Það allra mikilvægasta er að áhættan bitni ekki á skattgreiðendum. Þess vegna þurfa bankar að leggja verðbréf inn í seðlabankann sem tryggingu ef og þegar bankarnir þurfa lán. Við getum gengið miklu lengra í þessa átt,“ segir King meðal annars í viðtalinu.
King er 71 árs að aldri, og var bankastjóri Englandsbanka á árunum 2003 til 2013.
Hann var í forystuhlutverki fyrir seðlabanka heimsins á fjármálamörkuðum, þegar fjármálakerfin riðuðu til falls á árunum 2007 til 2009.
Þá reyndi verulega á seðlabanka og umfangsmiklar aðgerðir þeirra - ekki síst í formi fjárinnspýtinga inn á markaði - til að koma í veg fyrir enn meira tjón en varð.
Óhætt er að segja að staðan á Íslandi sé um margt ólík þeirri sem er fyrir hendi í öðrum löndum, þegar fjármálakerfið er annars vegar. Íslenska ríkið á Íslandsbanka að fullu, 99 prósent hlutafjár í Landsbankanum, auk þess að eiga Íbúðalánasjóð. Hlutdeild ríkisins er um 75 til 80 prósent á íslenska markaðnum.