Borgun, sem Íslandsbanki á 63,5 prósent hlut í, tapaði 170 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt uppgjöri bankans fyrir fyrrgreint tímabil sem birt var í dag.
Aðrir hluthafar Borgunar eru Eignarhaldsfélagið Borgun slf. með 32,4 prósent hlut og BPS ehf. með 2 prósent hlut.
Íslandssjóðir og Allianz Ísland hf., sem teljast til dótturfyrirtækja Íslandsbanka, högnuðust um 262 milljónir króna á fyrrnefndu tímabili. Íslandssjóðir um 123 milljónir, en Allianz Ísland um 139 milljónir.
Slæm afkoma Borgunar hefur neikvæð áhrif á kostnaðarhlutfall bankans, það er hlutfall rekstrarkostnaðar miðað við tekjur. Oft er horft til þess, þegar grunnreksturinn er greindur, og er það kappsmál hjá bönkum að halda því í takt við markmið.
Kostnaðarhlutfall samstæðu Íslandsbanka á fyrstu þremur mánuðum ársins var 62,6 prósent samanborið við 69,8 prósent á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 58,1 prósent sem er lítillega yfir 55 prósent langtímamarkmiði bankans.
Til samanburðar er kostnaðarhlutfall Landsbankans, sem ríkið á einnig, um 45 prósent.
Íslandsbanki hagnaðist um 2,6 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins, eins og greint var frá fyrr í dag, en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 2,1 milljarður.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri, segir í tilkynningu að staða bankans sé sterk. „Staða bankans er afar traust, lausafjárhlutföll í erlendum og innlendum gjaldmiðlum yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila og eiginfjárhlutföll í takt við langtímamarkmið. Lánasafnið er sterkt og koma gæði þess vel út í alþjóðlegum samanburði. Það gladdi mig hversu vel síðasta skuldabréfaboð bankans upp á 300 milljónir evra gekk á erlendum mörkuðum og það er ljóst að bankinn og íslenskt efnahagslíf njóta áframhaldandi trausts erlendra fjárfesta. Íslandsbanki hélt áfram að kynna nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini sína í byrjun árs 2019. Sem dæmi hafa lausnirnar „Lán í appi“ og „Velkomin í viðskipti“ hlotið frábærar viðtökur viðskiptavina og er bankinn rétt að byrja á þessari vegferð,“ segir Birna í tilkynningu.