„Þriðjudaginn 14 maí mun sjónvarpsstöðin Skjár 1 snúa aftur eftir margra ára hlé og verða nú eingöngu kvikmyndir í boði frá kl 20:00 og frameftir kvöldi í línulegu áhorfi, auk þess sem ný þjónusta „Skjáflakk“ mun veita aðgengi að öllum kvikmyndum Skjás 1 í allt að 7 daga „aftur í tímann“ í hliðrænu viðmóti sem hentar þeim sem vilja horfa þegar þeim hentar.“
Þetta segir í tilkynningu frá Skjá 1 en stöðin snýr nú aftur, en upphaflega hóf sjónvarpsstöð undir nafninu Skjár 1 starfsemi árið 1998.
Hólmgeir Baldursson, eigandi og forstöðumaður Skjár 1, segist bjartsýnn á að þjónustunni verði vel tekið, enda verði stillt í hóf og ýmislegt áhugavert í boði.
Í tilkynningu vegna þessa, segir að allar kvikmyndir á Skjá 1 verði með íslenskum texta og sýndar í heild sinni án auglýsingahlés.
„Sjónvarpsrásin verður nú aðgengileg öllum notendum sem hafa áskrift að grunnpakka nýrrar streymisveitu Skjás 1, sem nýlega var hleypt af stað, auk þess verður hægt að kaupa staka áskrift að stöðinni fyrir einungis 695 krónur á mánuði. Sýndar eru 2 kvikmyndir á hverju kvöldi og geta áskrifendur nálgast um 12-14 kvikmyndir vikulega í Skjáflakkinu sem gerir verðið einstaklega hagstætt, en meðal leiga einstakra kvikmynda á VOD leigum er um 600 krónur,“ segir í tilkynningu.
Hólmgeir segir að streymisveitan verði kjörinn vettvangur til að horfa hvar sem er, og að öppin verði óháð fjarskiptafyrirtækjum, og myndlyklar verði óþarfir.
Þá verði hægt að horfa um PC viðmót, og endurvarpa efninu um Chromecast sem og Airplay frá Apple. „Þetta er allt annað líf en þetta var, og dreifing á efninu mun einfaldri með internetinu eingöngu,“ segir Hólmgeir.