Tvö frumvörp eru nú komin í samráðsgátt stjórnvalda, sem varða breytingar á stjórnarskránni. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands en vinna við þessi tvö frumvörp er „komin á þann stað að rétt þykir að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þeirra,“ eins og segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Frumvörpin verða til umsagnar til 30. júní, og getur fólk skilað athugasemdum fyrir þann tíma.
Í frumvarpinu þar sem fjallað er um auðlindir í náttúru Íslands, er lögð til breyting sem er orðuð svo.
„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“
Í tilkynningu stjórnvalda er vakin athygli á því að samráðsgátt stjórnvalda er einungis eitt af þeim verkfærum sem nýtt verða til samráðs við almenning í stjórnarskrárvinnunni en að auki mun fara fram skoðanakönnun og rökræðukönnun síðar á árinu 2019.