Evrópusinnar eru hvað hlynntastir innleiðingu þriðja orkupakka ESB á Íslandi en nokkurn stuðning er að finna á meðal stuðningsfólks Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Innan við þriðjungur ríkisstjórnarflokkanna lýsir yfir stuðningi við innleiðingu orkupakkans en mestrar andstöðu gætir á meðal stuðningsfólks Miðflokksins og Flokks fólksins. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 30. apríl til 3. maí.
Af þeim svarendum sem tóku afstöðu til könnunarinnar sögðust 34 prósent mjög andvíg því að þriðji orkupakki ESB taki gildi á Íslandi, 16 prósent kváðust frekar andvíg, 19 prósent bæði og, 17 prósent frekar fylgjandi og 13 prósent mjög fylgjandi.
28,5 prósent þátttakenda í könnuninni tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Andstaðan eykst með auknum aldri
Karlar reyndust jákvæðari gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans en 36 prósent þeirra kváðust frekar eða mjög fylgjandi, samanborið við 24 prósent kvenna. Andstaða við innleiðingu orkupakkans jókst með auknum aldri en 38 prósent svarenda 50 ára og eldri kváðust mjög andvíg slíkri innleiðingu, samanborið við 32 prósent svarenda 30 til 49 ára og 29 prósent þeirra í yngsta aldurshópi, 18 til 29 ára. Þá voru svarendur í yngsta aldurshópi, eða 26 prósent, og þeir á aldrinum 30 til 49 ára, eða 21 prósent, líklegri til að segjast bæði jákvæðir og neikvæðir mjög slæma heldur en svarendur 50 til 67 ára, eða 16 prósent, og þeir 68 ára og eldri, eða 13 prósent.
Nokkur munur reyndist á svörun eftir búsetu en íbúar höfuðborgarsvæðisins voru líklegri til að segjast fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans, eða 37 prósent, heldur en íbúar af landsbyggðinni, eða 19 prósent. Landsbyggðarbúar voru hins vegar líklegri til að segjast andvíg orkupakkanum, eða 63 prósent, heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu, eða 43 prósent, en 49 prósent landsbyggðarbúa kváðust mjög andvíg.
Andstaða meiri á meðal stuðningsfólks Framsóknar
Stuðningur við þriðja orkupakkann virðist, samkvæmt MMR, almennt ekki hafa vera mikill hjá stuðningsfólki ríkisstjórnarflokkanna. Mestur var stuðningurinn hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokks en þó voru færri þeirra sem kváðust fylgjandi, eða 28 prósent, innleiðingu orkupakkans heldur en andvíg, eða 44 prósent. Andstaða reyndist meiri á meðal stuðningsfólks Framsóknar, eða 56 prósent, og Vinstri grænna, eða 55 prósent, en rúmlega þriðjungur stuðningsfólks Framsóknarflokksins, eða 35 prósent, kvaðst mjög andvígur.
Af stjórnarandstæðuflokkunum reyndist stuðningsfólk Miðflokksins að öllu leiti andvígt þriðja orkupakkanum en 93 prósent þeirra kváðust mjög andvíg. Meiri stuðning var hins vegar að finna á meðal stuðningsfólks Samfylkingarinnar (68 prósent fylgjandi), Viðreisnar (62 prósent fylgjandi) og Pírata (44 prósent fylgjandi) en nær helmingur stuðningsfólks Viðreisnar (47 prósent) kvaðst mjög fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakka ESB.
Ef litið er til ríkisstjórnarflokkanna sem heildar má sjá að tæplega helmingur stuðningsmanna flokkanna þriggja, eða 49 prósent, kvaðst andvígur innleiðingu þriðja orkupakkans en 27 prósent fylgjandi. Stuðningsfólk Flokks fólksins og Miðflokksins reyndist að mestu andvígt orkupakkanum, eða 98 prósent en 91 prósent þeirra kváðust mjög andvíg. Stuðningsfólk hinna þriggja stjórnarandstöðuflokkanna (Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar) reyndist hins vegar nokkuð samstíga í stuðningi sínum við þriðja orkupakkann og kváðust 59 prósent þeirra fylgjandi innleiðingu hans en 29 prósent kváðust frekar fylgjandi og 31 prósent mjög fylgjandi.
Þeir sem eru hlynntir inngöngu í ESB líklegri til að segjast fylgjandi
Ef litið er til afstöðu svarenda til ríkisstjórnarinnar má sjá að þau sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina voru líklegri til að segjast andvíg orkupakkanum, eða 54 prósent, heldur en þau sem sögðust styðja ríkisstjórnina, eða 43 prósent. Þau sem kváðust styðja ríkisstjórnina reyndust hins vegar líklegri til að segjast bæði andvíg og fylgjandi, eða 26 prósent, innleiðingu orkupakkans heldur en þau sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina, eða 14 prósent.
Þá reyndust þeir svarendur sem kváðust hlynntir inngöngu í Evrópusambandið líklegri til að segjast fylgjandi innleiðingu orkupakkans, eða 64 prósent, heldur en þau sem kváðust andvíg inngöngu í ESB, eða 11 prósent. Svarendur andvígir inngöngu í ESB reyndust hins vegar líklegri til að vera andvíg orkupakkanum, eða 75 prósent, heldur en þau sem kváðust hlynnt inngöngu Íslands í ESB, eða 19 prósent.
Einstaklingar 18 ára og eldri voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. 941 einstaklingur svaraði könnuninni.