Margvíslegar hættur geta steðjað að fjármálaeftirliti og sjálfstæði þess, á litlum markaði eins og þeim íslenska. T.d. geta stjórnmálamenn reynt að hafa áhrif á, bæði í gegnum persónuleg tengsl við fjárfesta og með pólitískum skipunum í stjórnir.
Þetta er meðal þess sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, gerir að umtalsefni í ítarlegri grein í Vísbendingu, þar sem fjallað er meðal annars um fyrirhugaða sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, með gagnrýnum hætti.
Í greininni segir meðal annars:
„Á fjármálaeftirlit einnig að vera sjálfstætt eða lúta pólitísku valdi? Rökin fyrir sjálfstæðu eftirliti eru þau annars vegar að hætta sé á að þeir sem hafa á eftirlit með, þ.e.a.s. aðilar á fjármálamarkaði, nái tökum á eftirlitinu (e. regulatory capture) og hins vegar að stjórnmálaöfl nái yfirhöndinni og láti þá eftirlitið stjórnast af pólitískum hagsmunum sínum til skamms tíma, t.d. að ekki megi hemja bankakerfi sem vex of hratt fyrir kosningar. Hér eru því einnig rök fyrir sjálfstæði en þau eru sumpart annars konar og aðrir kraftar ógna sjálfstæði fjármálaeftirlits.
Fjármálaeftirliti er ætlað að gæta þess að viðskiptabankar og aðrar fjármála stofnanir taki ekki of mikla áhættu í viðleitni sinni til að skila sem mestum hagnaði. Stjórnendur banka verða að vega og meta hversu mikla áhættu á að taka í rekstri banka sem annars miðar að því að ná sem bestri afkomu. Það getur verið mikil freisting í þessum rekstri að taka áhættu til að hámarka hagnað til skamms tíma einkum ef aðgengi að erlendu fjármagni er fullkomlega frjálst. Þannig er unnt að reka banka með lakari afkomu en minni áhættu eða með því að auka áhættu og einnig hagnað til skamms tíma.
Viðskiptabankar á Íslandi árin 2003-2008 eru skólabókardæmi um það sem getur farið úrskeiðis. Óheft aðgengi að erlendu lánsfé sem fékkst í skjóli lánshæfis ríkissjóðs (lánardrottnar gátu reiknað með að ríkið kæmi til hjálpar ef bankar lentu í vanskilum!) gerði eigendunum kleift að hagnast gríðarlega til skamms tíma en með því að stofna til mikillar áhættu bæði innan hvers banka og í krónuhagkerfinu. Aðgengi að erlendu lánsfé gerir bönkum og eigendum þeirra kleift að hagnast mikið til skamms tíma með meiri skuldsetningu en möguleg væri innan lands.
En sjálfstæði fjármálaeftirlits er einnig stundum ógnað af stjórnvöldum. Aðgerðir sem beinast gegn ákveðnum fjármálastofnunum geta haft áhrif á hagkerfið til lengri tíma. Gott dæmi er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir 2008 að því að koma upp alþjóðlegri fjármálamiðstöð á Íslandi, slaka á regluverki og styðja við vöxt bankanna. Aðgerðir FME til að hamla slíkum vexti hefðu þá gengið á skjön við stefnu ríkissjórnarinnar.
Ekki þarf mikið ímyndundarafl til að ímynda sér að ráðandi stofnanir á fjármálamörkuðum séu tengdar stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum á einhvern hátt. Þá steðjar hætta að eftirlitinu úr tveimur áttum: Í fyrsta lagi reyna stórar stofnanir á fjármálamarkaði að ná tökum á fjármálaeftirlitinu; ráða til sín reyndasta starfsfólk þess, hafa fleiri lögfræðinga á sínum vegum og á betri kjörum en eftirlitið getur haft. Í öðru lagi geta pólitískir hagsmunir komið fram í vali á stjórnarmönnum fjármálaeftirlitsins og þrýstingur frá ráðherrum haft áhrif á gerðir þess. Hættan er þá sú að fjármálakerfið verði brothætt þótt hagnaður sé mikill og ef illa fer þá bitni afleiðingarnar á almenningi á meðan eigendur komi sínu fé í skjól.
Aðgerðir fjármálaeftirlits felast í beinum afskiptum af rekstri fjármálafyrirtækja til að draga úr áhættusókn þeirra og geta þær hæglega bitnað á afkomu viðkomandi fyrirtækja. Því er mikilvægt að fjármálaeftirlit sé faglegt, lúti ekki flokkspólitískum vilja, og einnig að það fari ekki offari. En líklegt er að aðgerðir fjármálaeftirlits verði engu að síður umdeildar. Sérstaklega á þetta við um eftirlit um viðskiptahætti á markaði og neytendavernd sem gefur eftirlitinu, og eftir sameiningu Seðlabankanum, heimild til þess að ákveða refsingar fyrir ólöglega hegðun á skuldabréfa og hlutabréfamarkaði.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hérna.