Birting skýrslu sem Seðlabanki Íslands hefur unnið að árum saman, og fjallar um tildrög þess að Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán þann 6. október 2008, hefur enn einu sinni verið frestað.
Í mars boðaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að skýrslan yrði birt 30. apríl. Af því varð ekki og Kjarninn upplýsti þá um að skýrslan myndi verða birt tveimur vikum síðar, eða 14. maí, sem er á morgun.
Nú hafa Kjarnanum borist upplýsingar frá Seðlabanka Íslands um að skýrslunni hafi enn verið frestað og að hún verði birt eftir næstu vaxtaákvörðun. Því stendur nú til að birta skýrsluna annað hvort 23. eða 24. maí. Ástæðan er sögð sú að enn sé verið að ræða við aðila erlendis um birtingu ákveðinna upplýsinga.
Upphaflega var skýrslugerðin boðuð í febrúar 2015. Skýrslan nær einnig yfir söluferlið á danska bankanum FIH, sem var tekinn að veði fyrir lánveitingunni. Mun minna fékkst fyrir það veð en lagt var upp með og áætlað er að tap íslenskra skattgreiðenda vegna neyðarlánsins hafi numið 35 milljörðum króna.
Már greindi frá því í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í byrjun mars að Seðlabanki Íslands væri búinn að fá svör frá Kaupþingi ehf, félagi utan um eftirstandandi eignir hins gjaldþrota banka, um í hvað neyðarlánið fór.
„Við höfum spurt. Við erum komin með svar sem er kannski ekki alveg fullkomið[...]en sem er hægt að draga þó nokkrar ályktanir af. Það verður í þessari skýrslu. Hún er meira og minna bara á borðinu. Það þarf að klára örfá atriði. Það stendur á þessum karli sem hér er.[...]Þetta liggur eins og mara á mér að klára þetta. Og ég vil bara klára þetta sem fyrst.“
Nýjar upplýsingar birtar
Í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út í nóvember 2018, er aðdragandinn að veitingu neyðarlánsins rakinn ítarlega og ýmsar áður óbirtar upplýsingar birtar um þann aðdraganda. Þar voru einnig birtar nýjar upplýsingar um hvernig neyðarláninu var ráðstafað.
Á meðal þess sem þar er greint frá er að þann 21. apríl 2008 var samþykkt sérstök bankastjórnarsamþykkt, nr. 1167, um hver viðbrögð Seðlabanka Íslands við lausafjárvanda banka ætti að vera. Í reglunum var sérstaklega kveðið á um að skipa ætti starfshóp innan bankans til að takast á við slíkar aðstæður og gilda ætti ákveðið verklag ef aðstæður sem kölluðu á þrautarvaralán kæmu upp. Verklaginu var skipt í alls sex þætti. Í samþykktinni var líka fjallað um við hvaða skilyrði lán til þrautavara kæmu til greina og í henni var settur fram ákveðinn gátlisti vegna mögulegra aðgerða Seðlabankans við slíkar aðstæður.
Þegar Kaupþing fékk 500 milljónir evra lánaðar 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, var ekki farið eftir þeirri bankastjórnarsamþykkt. Þá er ekki til nein lánabeiðni frá Kaupþingi í Seðlabankanum og fyrir liggur að Kaupþingi var frjálst að ráðstafa láninu að vild.
Lánaði 171 milljón til Lindsor
Þann 6. október 2008, þegar Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi neyðarlán upp á 500 milljónir evra, veitti Kaupþing félaginu Lindsor, sem stýrt var af stjórnendum bankans, 171 milljón evra lán til 25 daga. Engar tryggingar voru settar fram fyrir láninu. Skjöl sýna að við rannsókn málsins hafi Fjármálaeftirlitið metið það svo að tilgangurinn með láninu hafi ekki verið að lána fjármunina til sérstakra nota, heldur til að gefa Lindsor svigrúm til að nota fjármunina þegar því hentaði. Lánanefnd Kaupþings veitti ekki samþykki fyrir láninu og hvergi er minnst á Lindsor í fundargerðum hjá lánanefnd Kaupþings fyrir árið 2008.
Sama dag og Lindsor fékk 171 milljón evra að láni hjá Kaupþingi keypti félagið skuldabréf útgefin af Kaupþingi upp á 84 milljónir evra og 95,1 milljón dala ásamt skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi í japönskum jenum og krónum sem metin voru á 15,2 milljónir evra. Sé miðað við skráð gengi 16. október 2008, þegar Lindsor skipti evru í aðra gjaldmiðla til að jafna hjá sér bókhaldið, var upphæðin sem notuð var til kaupa á bréfunum 170,1 milljón evra, eða nánast sama upphæð og Kaupþing hafði lánað Lindsor. Seljandinn var dótturbankinn í Lúxemborg sem keypt hafði þorra viðkomandi bréfa sama dag af fjórum starfsmönnum sínum, eigin safni bankans og félagið Marple, sem skráð var í eigu Skúla Þorvaldssonar. Hann segir félaginu þó ætið hafa verið stjórnað af Kaupþingi og að hann hafi ekki haft vitneskju um hvað átti sér stað innan þess.
Bjargað frá tapi
Í bréfi sem Fjármálaeftirlitið á Íslandi sendi fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg 22. janúar 2010 var óskað eftir því að Lindsor-málið svokallaða yrði rannsakað þar í landi. Í bréfinu er rakið að í ágúst 2008 hafi áðurnefndir fjórir starfsmenn Kaupþings í Lúxemborg keypt skuldabréf útgefin af Kaupþingi með afslætti.
Sölur fjórmenninganna voru að mati Fjármálaeftirlitsins framkvæmdar til að bjarga þeim frá því að hafa þurft að taka á sig mikið tap vegna skuldabréfakaupa sem þau höfðu tekið lán til að kaupa. Í bréfinu frá janúar 2010 segir enn fremur að viðskiptin hafi virst vera leið til að koma viðbótarfjármagni frá Kaupþingi í Lúxemborg til þessara starfsmanna. Þar er Lindsor lýst sem „ruslatunnu“ (e. rubbish bin) sem hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að Kaupþing í Lúxemborg og tengdir aðilar þyrftu að taka á sig tap vegna fjárfestinga sem þeir hefðu ráðist í.
Tekið upp án vitneskju Geirs
Í aðdraganda þess að Seðlabanki Íslands veitti lánið til Kaupþings ræddu Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, lánveitinguna í síma. Afrit af símtali þeirra hefur verið til hjá Seðlabankanum en var ekki birt árum saman vegna þess að Geir var mótfallinn því. Hann sagðist hafa verið tekinn upp án sinnar vitneskju og að það væri ekki boðlegt þegar um forsætisráðherra væri að ræða.
Í vitnaskýrslu yfir Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og fjarstýringar hjá Seðlabanka Íslands, hjá sérstökum saksóknara árið 2012, sem fjallað var um í fjölmiðlum á árinu 2016, kom fram að símtal milli Davíðs og Geirs, þar sem rætt var um lánveitinguna, hafi átt sér stað klukkan 11.57 mánudaginn 6. október.
Þar sagði einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var viðstaddur símtalið. Við skýrslutökuna sagði Sturla að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóðritaður og því frekar tekið símtalið úr síma samstarfsmanns síns en úr sínum eigin. Enginn annar var viðstaddur símtalið.
Kjarninn stefndi Seðlabanka Íslands
Kjarninn óskaði eftir því með tölvupósti til Seðlabanka Íslands þann 6. september 2017 að fá aðgang að hljóðrituninni. Tilgangurinn var að upplýsa almenning um liðna atburði og vegna þess að framundan var birting á tveimur skýrslum, þar af önnur sem unnin er af Seðlabankanum, þar sem atburðir tengdir símtalinu verða til umfjöllunar. Birting þeirrar skýrslu hefur síðan ítrekað frestast og á nú að birtast eftir rúmar tvær vikur.
Beiðnin var rökstudd með því að um væri að ræða einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hefði haft í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Seðlabankinn hafnaði beiðninni þann 14. september 2017 og byggði þá ákvörðun einvörðungu á því að þagnarskylda hvíldi yfir umræddum upplýsingum.
Afrit birt í Morgunblaðinu
Seðlabanki Íslands ákvað að taka til varna í málinu og var það þingfest. Áður en kom að fyrirtöku þess gerðist það hins vegar að Morgunblaðið birti afrit af símtalinu. Davíð Oddsson var á þeim tíma, og er enn í dag, ritstjóri Morgunblaðsins og þar var símtalið birt í heild sinni. Um málið var einnig fjallað í forsíðufrétt og þar er því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að símtalið var tekið upp.
Ekki hefur farið fram formleg rannsókn á því hvernig Morgunblaðið komst yfir hljóðritun úr Seðlabanka Íslands.
Símtalið í heild sinni:
Davíð: Halló.
Ritari Geirs H. Haarde forsætisráðherra: Gjörðu svo vel.
Davíð: Halló.
Geir: Sæll vertu.
Davíð: Sæll það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko, við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.
Geir: Nei.
Davíð: Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.
Geir: Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi allavega þessir Morgan menn.
Davíð: Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra fimm daga en ég held að það séu ósannindi eða við skulum segja óskhyggja.
Geir: En eru þeir ekki með einhver veð?
Davíð: Við myndum aldrei lána það og við ætlum að bjóða þetta gegn 100% veði í FIH banka.
Geir: Já.
Davíð: Og þá verðum við að vita að sá banki sé veðbandalaus.
Geir: Já.
Davíð: Því þá við megum ekki, sko, við megum ekki setja íslenska ríkið á galeiðuna.
Geir: Nei, nei þetta eru 100 milljarðar, spítalinn og Sundabrautin.
Davíð: Já, já ert þú ekki sammála því að við verðum að gera ýtrustu kröfur?
Geir: Jú, jú.
Davíð: Já.
Geir: Ég held að þeir muni leggja mikið á sig til að reyna samt að að uppfylla þær, sko.
Davíð: Já, já, já, já það er bara eina hættan er sú að þeir séu búnir að veðsetja bréfin og þá geta þeir ekki gert þetta, sko.
Geir: Já, já og hvað myndum við koma með í staðinn?
Davíð: Ja, það veit ég ekki, þá verðum við bara að horfa á það en það, við erum bara að tala um ýtrustu veð, erum að fara með okkur inn að beini þannig að við verðum að vera algjörlega öruggir.
Geir: En er Landsbankinn ekki með neitt slíkt sem hann geti látið okkur hafa?
Davíð: Já, en þá er að við erum ekki með pening í þetta. Við erum að fara alveg niður að rassgati og við ætlum meira að segja að draga á Danina sem ég talaði við í gær og sagði að við myndum ekki gera.
Geir: Já.
Davíð: En við erum búnir að tala við bankastjórana þar og þeir eru að íhuga að fara yfir þetta.
Geir: Um.
Davíð: Það tekur tvo til þrjá daga að komast í gegn.
Geir: Já.
Davíð: En við myndum skrapa, Kaupþing þarf þetta í dag til að fara ekki á hausinn.
Geir: Já, en það er spurning með þá, fer þá Landsbankinn í dag?
Davíð: Já, þá myndi hann fara í dag á hausinn væntanlega.
Geir: Og Glitnir á morgun?
Davíð: Og Glitnir á morgun.
Geir: Já.
Davíð: Landsbankanum verður væntanlega lokað í dag bara.
Geir: Já.
Davíð: Við vitum ekki, reyndar vitum við ekki hvort það er árás á Kaupþing Edge. Við gerum ráð fyrir því þeir hafa ekki sagt okkur það ennþá.
Geir: Er það á Icesave?
Davíð: Það eru farnar 380 milljónir út af Icesave punda og það eru bara 80 milljarðar.
Geir: Þeir ráða aldrei við það, sko.
Davíð: Nei, þeir ráða aldrei við neitt af því, sko, en þetta er það besta leiðin ef við getum afskrifað allar skuldir þjóðarinnar þó að það muni valda vandræðum í Evrópu þá en þeir bara hjálpuðu okkur ekki neitt þannig að það er ha...
Geir: Já, já.
Davíð: Þannig að þetta er nú...
Geir: Heyrðu, ég var að spá í að halda hérna fund klukkan eitt og ætlaði að biðja þig að koma þangað annað hvort einan eða með þeim sem þú vilt hafa með með öllum formönnum stjórnmálaflokkanna.
Davíð: OK.
Geir: Og Fjármálaeftirlitinu?
Davíð: Já.
Geir: Til að fara yfir þetta og...
Davíð: En það, getur þú ekki haft það Jónas ekki Jón Sigurðsson það er óeðlilegt að...
Geir: Jónas, hann var hjá okkur í morgun.
Davíð: Og hvað ertu að hugsa um að?
Geir: Ég myndi vilja að það yrði farið í fyrsta lagi yfir frumvarpið án þess kannski að afhenda þeim það en...
Davíð: En hvað mega menn vera einlægir?
Geir: Ég er búinn að vera mjög einlægur við þá.
Davíð: Já.
Geir: Ég er eiginlega búinn að segja þeim þetta allt.
Davíð: OK.
Geir: Ég segi bara að við erum bara hérna að tala hérna saman í fyllstu einlægni um alvarlegustu vandamál sem upp hafa komið í þjóðfélaginu og ég treysti ykkur til að fara ekki með það.
Davíð: Já, já.
Geir: Og það hafa þeir virt held ég ennþá.
Davíð: Ja, þeir hafa sagt einhverjum af örugglega en það er bara, þú getur aldrei haldið lokinu.
Geir: Nei.
Davíð: Fastara en þetta á.
Geir: Nei, en...
Davíð: Klukkan eitt eða hvað?
Geir: Bara hérna hjá mér í ríkisstjórnarherberginu.
Davíð: Hérna niðri í stjórnarráði?
Geir: Já.
Davíð: OK.
Geir: Spursmálið er svo hérna...
Davíð: Ég kem bara einn held ég, það er betra að vera þarna fámennt en fjölmennt.
Geir: Já og þá myndum við fara almennt yfir heildarmyndina.
Davíð: Já.
Geir: Og af hverju þessi lög eru nauðsynleg.
Davíð: Já, já.
Geir: Og svo er ég að plana það þannig að lögin verði orðin að lögum um sjöleytið, mælt fyrir þeim klukkan fjögur, þingflokksfundir klukkan þrjú og það ætti að skapa okkur rými til þess að...
Davíð: Mælt fyrir þeim klukkan fjögur?
Geir: Já.
Davíð: OK.
Geir: Já, er það ekki rétti tíminn?
Davíð: Jú, jú, jú, jú, jú, jú.
Geir: Ég er búinn að undirbúa það að þetta geti fengið hraða afgreiðslu og þeir...
Davíð: Já, já.
Geir: Hafa haft góð orð um það.
Davíð: Fínt er.
Geir: OK bless, bless.
Davíð: Bless.