Forsætisnefnd Alþingis hefur haft til meðferðar erindi um meint brot Ágústs Ólafs Ágústssonar, alþingismanns, á siðareglum fyrir alþingismenn vegna kynferðislegs áreiti hans gagnvart konu. Kristján Hall, sem bauð sig meðal annars fram fyrir Miðflokkinn í sveitastjórnarkosningum í fyrra, sendi erindið inn en engin gögn eða nánari upplýsingar um málavexti fylgdu erindinu. Forsætisnefnd hefur nú birti niðurstöðu sína en þar kemur fram að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu.
Siðanefnd sá sér ekki fært að leggja mat á erindið
Í bókun forsætisnefndar sem birt var í dag segir að við mat á því hvort hátterni Ágústs teljist opinber framganga sem falli undir gildissvið siðareglna fyrir alþingismenn hafi nefndin leitað eftir ráðgefandi áliti siðanefndar. Í svari siðanefndar er hins vegar vísað til þess að eins og málið liggi fyrir telji siðanefndin sér ekki fært að leggja mat á þau álitaefni sem felast í erindi forsætisnefndar til sín.
Vísaði nefndin þar til þess að erindið væri ekki rökstutt með vísan til tilgreindra ákvæða siðareglna fyrir alþingismenn. Þá yrði ekki fram hjá því litið að sá aðili sem hið meinta hátterni bitnaði á hefði ekki leitað til forsætisnefndar vegna meints brots á siðareglum. Í bókun forsætisnefndar er þó tekið fram að siðareglur fyrir alþingismenn gera ekki þá kröfu að sá sem leggur fram erindi tengist máli eða að hátterni þingmanns hafi bitnað á honum.
Málavextir óumdeildir
Jafnframt segir í bókun forsætisnefndar að af þessu megi ráða að mat siðanefndarinnar sé að slík staðreynd geti eins og horfi við í málinu skipt meira máli en hvort mál falli undir siðareglur fyrir alþingismenn, þar sem afla þyrfti upplýsinga frá aðila sem ekki hefði óskað eftir afskiptum forsætisnefndar af því. Í bókuninni segir að forsætisnefnd fallist á að slíkar aðstæður geti skipt máli enda sé þá litið til sjónarmiða um nærgætni og sanngirni gagnvart þeim sem hlut eigi að máli.
Þá segir jafnframt að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að málavextir séu óumdeildir. „Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að málavextir séu óumdeildir og að Ágúst hafi fallist á niðurstöðu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar. Sú niðurstaða sem þar er lýst verður að telja alvarlegan áfellisdóm um hátterni þingmannsins,“ segir í bókuninni.
Að lokum segir að það sé niðurstaða forsætisnefndar að fyrirliggjandi erindi Kristjáns gefi ekki tilefni til frekar athugunar af hálfu nefndarinnar. „Þegar litið er til niðurstöðu siðanefndar og þess áfellisdóms sem opinberlega liggur fyrir í niðurstöðu trúnaðarnefndarinnar, er það hins vegar niðurstaða forsætisnefndar, að undangengnu heildstæðu mati, að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu. Er þá einkum höfð hliðsjón af 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. siðareglna fyrir alþingismenn,“ segir í bókuninni.