Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði það af og frá, að einhver pólitísk hrossakaup hefðu verið gerð, í tengslum við þungunarrofsfrumvarpið, en umræða um það var nokkuð heit á Alþingi í dag. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hélt því fram að pólitísk hrossakaup hefðu átt sér stað, þar sem stjórnarflokkarnir hefðu sammælst um stuðning við orkupakkamálið og síðan þungunarrofsfrumvarpið, til að lægja öldur í eigin baklandi.
Katrín sagði málið vera grundvallarmál.
„Það er alrangt sem háttvirtur þingmaður gefur í skyn að um svona grundvallarmál eigi sér hrossakaup af nokkru tagi. Það er bara ekki svoleiðis, virðulegi forseti [...] Því það snýst um réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama og konur verða aldrei sjálfstæðar nema að þau hafi þau réttindi,“ sagði Katrín í umræðum um málið.
Alþingi felldi tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson, formanns Miðflokksins, en hann lagði til að frumvarpið yrði tekið af dagsa þingsins. Var tillagan felld með yfirgnæfandi meirihluta, 44 atkvæðum gegn 16.
Fjöldi kvenna hefur fylgst með umræðum um málið á þingpöllunum.
Verði frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að lögum verður þungunarrof heimilt fram á 22. viku meðgöngu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki.
Samkvæmt núgildandi lögum er það heimilt til loka 16. viku og heimild er til þess eftir 16 vikur við vissar aðstæður. Umræða um málið stendur nú yfir, og hægt er að fylgjast með því beint hér.