Á fundi utanríkismálanefndar í dag var tekin ákvörðun um að taka málið um þriðja orkupakkann úr nefndinni og taka málið til umræðu á morgun þriðjudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðflokknum.
Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, atkvæði Miðflokksins. Samkvæmt tilkynningunni er einn dagur gefinn til þess að leggja fram minnihlutaálit.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður nefndarinnar og þingmaður VG, staðfestir þetta í samtali við Kjarnann en hún segir að þinglegri meðferð nefndarinnar fyrir seinni umræðu sé nú lokið og þess vegna hafi málið verið tekið úr nefndinni. Engu hafi verið við að bæta á þessu stigi málsins.
„Gestakomur kláruðust sem sagt á föstudaginn og var nefndarálitið unnið um helgina og samþykkt í dag,“ segir hún. Næst á dagskrá séu umræður á Alþingi.
Óánægja meðal Miðflokksmanna
„Það er skoðun þingmanna Miðflokksins að málsmeðferðin sé með öllu óboðleg. Hér er um að ræða afar þýðingarmikið mál sem varðar mikla þjóðarhagsmuni. Nefnd er tekur slíkt mál til umfjöllunar ber að kynna sér sjónarmið allra þeirra er þekkingu hafa á slíkum málum, annað er Alþingi lítt til sóma.
Það má ljóst vera að ætlunin er að þröngva málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið valdi mörgum áhyggjum og mikil andstaða sé við það meðal þjóðarinnar,“ segir í tilkynningu Miðflokksins.