Þungunarrofsfrumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 18, en þrír sátu hjá, í atkvæðagreiðslunni. Tveir voru ekki viðstaddir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra, en hún er á Grænlandi, og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Málið var umdeilt og klauf flokka. Þannig greiddi t.d. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, atkvæði gegn frumvarpinu, einn ráðherra í ríkisstjórn. „Kvennfrelsi geti ekki trompað hvert einasta annað álitamál sem kemur upp í þessum efnum,“ sagði hann meðal annars, og vísaði til þess að málið væri margslungið og flókið.
Málið sem nú er orðið að lögum þýðir að þungunarrof er heimilt fram á 22. viku meðgöngu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki.
Samkvæmt gömlu lögunum var það heimilt til loka 16. viku og heimild var til þess eftir 16 vikur við vissar aðstæður.