Átta þingmenn þriggja flokka hafa lagt fram þingsályktunartillögu um könnun á viðhorfi almennings í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum til áframhaldandi hvalveiða Íslendinga.
Fyrsti flutningsmaður er Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og formaður flokksins. Með henni eru þingmenn úr Viðreisn, Samfylkingunni og Pírötum: Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þau vilja að utanríkisráðherra láti kanna viðhorf almennings í fyrrnefndum löndum til áframhaldandi hvalveiða Íslendinga og hvaða áhrif áframhaldandi veiðar geti mögulega haft á sölu á íslenskum vörum á mörkuðum í þessum löndum, ferðamenn sem koma til Íslands eða hafa hug á því og vörumerkið Ísland.
Mikilvægt að taka ímynd landsins alvarlega
Í greinargerð með tillögunni er bent á að þann 19. febrúar síðastliðinn hafi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritað reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu í landhelgi Íslands til næstu fimm ára. Að mati flutningsmanna er um að ræða meiri háttar ákvörðun sem ástæða sé til að undirbyggja betur áður en leyfi til hvalveiða verði veitt þeim fyrirtækjum sem hyggja á veiðar á þessu tímabili.
„Undanfarinn áratug hefur kastljós heimsins beinst í auknum mæli að Íslandi og hefur það haft í för með sér gjörbreytingu á mikilvægi þess að taka ímynd landsins og virði hennar alvarlega. Ferðaþjónusta sem atvinnugrein á margt undir þessari ímynd og hefur hún tekið fram úr sjávarútvegi og áliðnaði sem stærsta útflutningsgrein landsins. Árið 2010 komu hingað um 500.000 ferðamenn en árið 2018 var sá fjöldi orðinn 2,2 milljónir. Hlutfall tekna ferðaþjónustunnar af gjaldeyristekjum þjóðarinnar hefur vaxið úr 26,4 prósent í 42 prósent á árabilinu 2013 til 2017 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands,“ segir í greinargerðinni.
Þá kemur fram að mikill meirihluti ferðamanna leiti sér upplýsinga um Ísland á netinu eða í gegnum samfélagsmiðla. Þannig megi finna 10.370.725 myndir með myllumerkinu #Iceland á samfélagsmiðlinum Instagram sem stofnaður var í lok árs 2010. Ímynd Íslands á alþjóðavísu og hugmyndir ferðamanna sem hingað koma um landið séu samofnar þeim breytingum og hraða á upplýsingamiðlun sem átt hefur sér stað undanfarinn áratug með tilkomu samfélagsmiðla. Það sé því mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að gerð sé ítarleg athugun á viðhorfi þeirra þjóða sem helst koma hingað til hvalveiða og hvort þau viðhorf komi til með að hafa áhrif á vilja fólks til að ferðast til landsins.
Ekki sé síður mikilvægt að kanna hug þessara þjóða á því hvaða áhrif hvalveiðar hefðu á vilja þeirra til að kaupa vörur frá Íslandi. Þegar stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samstarfssamning um átak í þjónustu utanríkisráðuneytisins við útflutningsfyrirtæki til að auka slagkraft þeirra á erlendum mörkuðum kom fram hjá framkvæmdastjóra SA að auka þyrfti útflutning um einn milljarð króna á viku til að standa undir hagvaxtaspám.
Miklir hagsmunir fyrir íslenskan sjávarútveg
Samkvæmt þingmönnunum sem leggja fram tillöguna er ljóst að áframhaldandi lífsgæðum á Íslandi verður ekki viðhaldið nema með því að stórauka útflutning á íslenskum vörum og þjónustu. „Nú þegar eru komnar fram vísbendingar um að hvalveiðar geti haft áhrif á val neytenda á íslenskum vörum. Í könnunum sem „Iceland Naturally“, sem er markaðs- og kynningarverkefni aðila með hagsmuni á mörkuðum í Norður-Ameríku, hefur gert reglulega á viðhorfum Bandaríkjamanna og Kanadamanna til hvalveiða er ljóst að veiðar hafa veruleg áhrif á viðhorf þessara þjóða gagnvart hvalveiðiþjóðum og vörum frá þeim. Í því sambandi verður að hafa í huga að sterkustu fiskútflutningsmarkaðir Íslands eru m.a. í þeim löndum þar sem flutningsmenn óska eftir að viðhorf til hvalveiða verði könnuð.“
Íslenskur sjávarútvegur hafi jafnframt mikla hagsmuni af því að ímynd Íslands sem sjálfbærrar fiskveiðiþjóðar sem styðst við rannsóknir og nútímalegar tækniframfarir í veiðum og vinnslu sé ekki teflt í tvísýnu á þessum mikilvægu mörkuðum. Í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg komi fram að þrátt fyrir að magn ferskfiskafurða hafi dregist saman um þriðjung frá árinu 2000 þá hafi útflutningsverðmæti ferskfiskafurða aukist um 82 prósent yfir sama tímabil. Þessi breyting sýni vel að sjávarútvegurinn, sem útflutningsgrein, eigi möguleika á að ná fram enn meiri verðmætum með því að leggja áherslu á gæði fremur en magn. Neytendavenjur á þessu mörkuðum hafi fest í sessi breytingar undanfarna áratugi þar sem stærri hópur neytenda sé tilbúinn að greiða hærra verð fyrir vörur sem eru umhverfisvænar og framleiddar samkvæmt ströngustu kröfum um matvælaframleiðslu og dýravelferð.
„Í þessu samhengi er mikilvægt að huga vel að því að ímynd sem byggð er upp með markaðsherferðum og á samfélagsmiðlum getur eyðilagst eða stórlega skaðast nánast á augabragði ef réttar aðstæður skapast í flóknu samspili tilfinninga og skilaboða sem fara manna á milli á internetinu. Stjórnvöldum ber skylda til að safna greinargóðum upplýsingum um áhrif ákvarðana sinna á mikilvægustu viðskiptamörkuðum okkar. Ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar er veigamikil og sterkar vísbendingar eru uppi um að stærstu útflutningsgreinum Íslands stafi ógn af þeirri ákvörðun. Því er nauðsynlegt að kanna áhrif áframhaldandi hvalveiða á ímynd landsins og vörumerkið Ísland áður en ný veiðileyfi verða gefin út,“ segir í greinargerðinni með þingsályktuninni.