Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann teldi breyttar horfur í efnahagslífinu kalla á nýja fjármálaáætlun.
Samkvæmt nýrri spá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir 0,2 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, en samkvæmt bráðabirgðartölum Hagstofunnar frá því í mars, var hagvöxtur 4,6 prósent í fyrra.
Mikil breyting til hins verra, á skömmum tíma, skýrist einkum af samdrætti í útflutningstekjum þjóðarbússins, eftir fall WOW air og samdrátt í komu ferðamanna til landsins, og síðan í loðnubresti, en árlegar tekjur af sölu á loðnuafla hafa numið á bilinu 18 til 30 milljörðum árlega, á síðustu árum.
Bjarni sagði, í umræðum sem sköpuðust eftir að Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði út í vinnu við fjármálaáætlun, að forsendurnar væru einfaldlega verulega breytta frá því að ríkisstjórnin setti fram áætlun sína í byrjun kjörtímabilsins.
„Hvað er það í opinberum fjármálum sem kemur að bestu gagni fyrir hagkerfið og fólkið sem býr í þessu landi í dag. Það er alvöru spurningin. Nema menn ætli að vera formalistar,“ sagði Bjarni meðal annars.
Óhætt er að segja að dramatískar breytingar hafi orðið á stöðu efnahagsmála á undanförnum vikum og mánuðum.
Í fyrra urðu til 6.500 ný störf í íslenska hagkerfinu, eða sem nemur rúmlega 1.400 störfum fyrir hvert prósentustig í hagvexti.
Breytingin úr miklum hagvexti í samdrátt má því mæla í þúsundum starfa, nærri 7 þúsund, sé miðað við fyrrnefndar forsendur.
Í upphafi árs í fyrra voru 201 þúsund og eitthundrað störf í íslenska hagkerfinu, en þau voru 207 þúsund og sex hundruð, í upphafi þessa árs, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.