„Það sem er nýtt og við höfum aldrei haft er þú ert með fyrrum formenn sem eru svona gagnrýnir á Sjálfstæðisflokkinn. Eru bara að hamast í því mjög lengi. Við erum annars vegar með Þorstein Pálsson, sem er farinn í annan flokk, og svo Davíð Oddsson.“
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í viðtali í sjónvarpsþættinum Mannamáli sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Þorsteinn Pálsson, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins 1983 til 1991, var á meðal þeirra Sjálfstæðismanna sem gengu úr flokknum eftir að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var dregin til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014. Þorsteinn sagði að svik á loforði um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, sem gefið hafði verið í aðdraganda kosninga 2013, hafi verið „ein stærstu svik sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum“. Þorsteinn kom síðar að stofnun Viðreisnar og hefur verið ötull gagnrýnandi á störf Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum. Gagnrýni Þorsteins hefur að megin stefi verið sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki nægilega alþjóðlegur og of íhaldssamur.
Gagnrýnin truflar flokkinn
Í Mannamáli spyr Sigmundur Ernir Rúnarsson þáttarstjórnandi Guðlaug Þór af því hvernig Sjálfstæðisflokknum líði, nú þegar sótt sé að honum úr öllum áttum. Öðru megin sé Miðflokkurinn með sínar þjóðernislegu áherslur og hinu megin Viðreisn með sína alþjóðahyggju. Sigmundur Ernir spyr Guðlaug Þór hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé einfaldlega að minnka.
Guðlaugur Þór telur svo ekki vera. „Við höfum alltaf þolað það að sveiflast í skoðanakönnunum. Sem skiptir mjög miklu máli.“ Það sem sé nýtt sé að fyrrverandi formenn séu iðulega að gagnrýna flokkinn opinberlega. Hann viðurkennir þó að þessi staða trufli flokkinn. „Auðvitað gerir þetta það. Þetta er líka ný upplifun. Svona var þetta aldrei.“
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur farið minnkandi undanfarin misseri. Lengi vel var flokkurinn með 35-40 prósent fylgi og í krafti þess styrkleika hefur hann stýrt Íslandi í þrjú af hverjum fjórum árum frá því að Íslendingar fóru að ráða sér sjálfir. Í fjórum kosningum í röð hefur flokkurinn hins vegar fengið undir 30 prósent atkvæða.
Langt síðan að ríkisstjórn flokksins sat heilt kjörtímabil
Síðasti formaður hans sem myndaði ríkisstjórn sem sat út heilt kjörtímabil var Davíð Oddsson. Hrunstjórn Geirs H. Haarde féll eftir rúmlega eins og hálfs árs setu í byrjun árs 2009. Ríkisstjórn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar féll eftir þrjú ár vorið 2016 vegna Panamaskjalanna og kosið var um haustið, hálfu ári áður en kosningar voru fyrirhugaðar.
Og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem tók við völdum í janúar 2017 eftir nokkurra mánaða stjórnarkreppu, sat í einungis 247 daga þar til að hún sprakk vegna uppreist æru-málsins um miðjan september 2017.
Miðflokkurinn og Viðreisn fengu samtals 17,6 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Í nýjustu könnun Gallup mældist sameiginlegt fylgi þeirra 19,9 prósent en fylgi Sjálfstæðisflokksins 23,9 prósent. Í nýjustu könnun MMR mældust Miðflokkurinn og Viðreisn saman með 18,4 prósent fylgi á meðal að fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 20,2 prósent.