Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi 234,4 milljónir króna, að viðbættum vöxtum, vegna breytinga á reglugerð um úthlutun fjármuna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem ekki samræmdum stjórnarskrá.
Einn dómari af fimm, Benedikt Bogason, skilaði sératkævði, og taldi að staðfesta hefði átt dóm Landsréttar, sem féll ríkinu í vil. „Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið tel ég reglugerðarheimildina í 3. málslið 18. gr. laga nr. 4/1995 ekki í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig fellst ég á það með Landsrétti að hún fari heldur ekki í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar eða skerði þau réttindi sem njóta verndar í 76. gr. hennar. Samkvæmt þessu tel ég að staðfesta eigi dóm Landsréttar um annað en málskostnað og fella hann á aðaláfrýjanda á öllum dómstigum,“ segir í sératkvæði Benedikts.
Forsaga málsins er sú að ríkið gerði breytingar á reglugerð um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveietarfélaga, þar sem kveðið var um að þau sveitarfélög sem hefðu heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti, sem teldist verulega umfram landsmeðaltal, skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr sjóðnum.
Þágildandi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 960/2010 var svo breytt á grundvelli framangreindrar heimildar með reglugerð nr. 1226/2012. Var þar mælt fyrir um nýja grein í stofnreglugerðinni en samkvæmt henni skyldu framlög til þeirra sveitarfélaga þar sem heildarskatttekjur væru að minnsta kosti 50 prósent umfram landsmeðaltal, það er útsvar og fasteignaskattur á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna, falla niður.
Grímsnes- og Grafningshreppur var eitt þeirra fimm sveitarfélaga sem sættu niðurfellingu jöfnunarframlaga af þessum sökum. Höfðaði hreppurinn málið á þeim forsendum, og krafðist greiðslu sem svaraði til þeirra fjárhæðar sem hann hefði fengið á árunum 2013 til 2016 ef ekki hefði komið ti ákövrðun ráðherra um niðurfellingu greiðslnanna.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í skýringum í greinargerð frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 kæmi fram að tilgangur hennar væri að taka af skarið um að ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga ætti undir löggjafarvaldið og þar með ekki undir framkvæmdarvaldið.
Í ljósi stjórnskipulegrar stöðu sveitarfélaga og fyrirmæla 2. mgr. 78. gr. yrði lagaáskilnaðarregla ákvæðisins ekki túlkuð á annan veg en þann, að ekki væri heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga í heild eða að hluta nema með lögum.
„Eins og fram er komið var í skýringum í greinargerð frumvarps til síðastgreindra stjórnarskipunarlaga með reglu þeirri er varð 2. mgr. 78. gr. sagt að tilgangur hennar væri að taka af skarið um að ,,ákvörðun“ um tekjustofna sveitarfélaga ætti undir löggjafarvaldið og þar með ekki undir framkvæmdarvaldið. Í ljósi stjórnskipulegrar stöðu sveitarfélaga og sérstaklega fyrirmæla 2. mgr. 78. gr. verður lagaáskilnaðarregla ákvæðisins ekki túlkuð á annan veg en þann, að ekki sé heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga í heild eða að hluta nema með lögum. Það varð því ekki gert með reglugerð. Auk þess mælir ákvæði 3. málsliðar 18. gr. laga nr. 4/1995 í fyrsta lagi fyrir um heimild ráðherra til þess að ákveða hvort fella skuli niður umrædd jöfnunarframlög eða ekki og í öðru lagi til þess að ákveða hvað telja beri ,,verulega umfram landsmeðaltal“. Ráðherra var þannig falið ákvörðunarvald um hvort skerða skyldi tekjustofna sveitarfélaga eða ekki andstætt því sem beinlínis var tekið fram í lögskýringargögnum með 2. mgr. 78. gr. svo sem rakið hefur verið. Þá er ljóst að ráðherra var ekki bundinn af ráðagerð í greinargerð frumvarps þess, sem síðar varð að lögum nr. 139/2012, um að 50% teldist verulega umfram landsmeðaltal. Hann gat því metið það svo að lægra, jafnvel mun lægra, hlutfall væri einnig verulega umfram landsmeðaltal, eða talið rétt að hlutfallið væri hærra, jafnvel mun hærra en 50% til þess að fullnægja örugglega framangreindum áskilnaði. Niðurstaða ráðherra um þetta hefði leitt til þess að sveitarfélögum sem sættu niðurfellingu þeirra tekjustofna, sem um ræðir, hefði fjölgað eða fækkað eftir atvikum,“ segir í dómnum.
Dómarar í málinu voru Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.