Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem meðal annars á og rekur DV og dv.is. Greint var frá því í byrjun apríl að aðalritstjóri DV, Kristjón Kormákur Guðjónsson, hefði sagt upp störfum og hafið störf á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Lilja Katrín hefur starfað í fjölmiðlum síðustu fimmtán árin. Hún hóf ferilinn á Fréttablaðinu og hefur meðal annars verið ritstjóri Séð og Heyrt, umsjónarmaður innblaðs Fréttablaðsins og Lífsins á Vísi og vefstjóri Mannlífs. Þá hefur hún einnig unnið sem dagskrárgerðarkona í Íslandi í dag og starfað sem kynningarstjóri framleiðslufyrirtækisins Sagafilm.
Í fréttatilkynningu frá Frjálsri fjölmiðlum kemur fram að Lilja er annar tveggja ritstjóra sem ráðnir verða til félagsins. Þá er Einar Þór Sigurðsson áfram aðstoðarritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.
Miklar sviptingar hafa verið innan DV og tengdra miðla undanfarin misseri. Frjáls fjölmiðlun keypti í haustið 2017 fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot.
Hluti skulda Pressunnar voru skildar eftir í henni og félagið svo sett í þrot. Alls var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar. Skiptastjóri búsins viðurkenndi kröfur upp á 110 milljónir króna en hafnaði öðrum. Skiptastjóri búsins vill láta rifta ráðstöfunum á fjármunum upp á samtals um 400 milljónir króna sem áttu sér stað áður en Pressan var sett í þrot.
Frjáls fjölmiðlun ehf. tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Tekjur þess voru 81,4 milljónir króna frá því að félagið hóf starfsemi í september 2017 og fram að áramótum. Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd