„Nú á sér stað mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Fjárfesting í miðborginni hefur numið um 150 milljörðum á undanförnum árum sem er mjög varlega áætlað.“
Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í fréttabréfi sínu í dag. Í morgun fór fram fundur um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í borginni, og segir Dagur að hans skilaboð inn á fundinn hafi verið þau, að nú sé góður tími til að fjárfesta - þegar borgin er að fara inn í mesta uppbyggingartímabilið í sögunni.
„Reykjavíkurborg (borgarsjóður og fyrirtækin) mun á næstu árum fjárfesta fyrir um 196 milljarða króna í Reykjavík í heild sinni. Við erum að sjá fjölbreytta uppbyggingu atvinnuhúsnæðis um alla borg, allt frá Úlfarsárdal, Gufunesi, Grafarvogi, Árbæ og vestur eftir borginni. Mér finnst sérstaklega mikið fagnaðarefni að stærsta frumkvöðlasetur landsins, Gróska, sé nú að rísa í Vatnsmýrinni þar sem CCP reisir nú höfuðstöðvar sínar. Nú þegar teikn eru á lofti í efnahagslífinu er mikilvægt að greina tækifærin til að ráðast í fjárfestingar sem eru skynsamlegar til lengri tíma litið. Reykjavíkurborg mun ekki láta sitt eftir liggja,“ segir í fréttabréfinu.
Ráðgert er að um 5 þúsund nýjar íbúðir komi út á markað á höfuðborgarsvæðinu, á næstu tveimur árum, einkum litlar og meðalstórar, sem mesta eftirspurn er eftir.
Töluvert kólnun hefur verið á fasteignamarkaði að undanförnu, frá því að uppsveifla á markaðnum náði hámarki á vorma´nuðum 2017, en þá mældist árshækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu 23,5 prósent. Nú mælist hækkunin, að teknu tillit til verðlagsþróunar, 1 til 2 prósent.