Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Baugs, sem nú er í gjaldþrotameðferð, er á meðal þeirra sem tilnefningarnefnd leggur til að verði meðal stjórnarmanna í Skeljungi.
Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallar.
Lokatillaga tilnefningarnefndar Skeljungs til hluthafafundar, sem haldinn verður þann 27. maí 2019, er að eftirfarandi verði skipaðir í stjórn félagsins.
- Ata Maria Bærentsen
- Baldur Már Helgason
- Birna Ósk Einarsdóttir
- Jens Meinhard Rasmussen
- Jón Ásgeir Jóhannesson
Framboð til stjórnar Skeljungs þurfa að berast fyrir kl. 16:00, miðvikudaginn 22. maí 2019.
365 miðlar, félag Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, er meðal stærstu hluthafa Skeljungs, og fer með yfirráð yfir rúmlega 10 prósent hlut, að því er segir í skýrslu tilnefningarnefndar.
Í tilnefningarnefndinni eru Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, Sigurður Kári Árnason, lögfræðingur hjá Umboðsmanni Alþingis og Kjartan Örn Sigurðsson, stjórnarmaður í stjórn Skeljungs. Sigurður Kári var á öðrum fundi kjörinn formaður nefndarinnar. Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Skeljungs, var kjörin ritari nefndarinnar.
Í umsögn nefndarinnar um Jón Ásgeir, segir að hann teljist hafa yfirburðaþekkingu og reynslu. „Jón Ásgeir telst hafa yfirburðaþekkingu á smásölurekstri, úrvinnslu og umbreytingu fasteigna. Jón Ásgeir hefur komið að margvíslegum rekstri, stórum sem smáum og þekkir vel til stjórnarhátta fyrirtækja. Jón Ásgeir hlaut menntun frá Verzlunarskóla Íslands í verslunarfræðum,“ segir í umsögninni.
Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu.
Markaðsvirði félagsins er rúmlega 18 milljarðar króna, en eigið fé félagsins var í lok árs í fyrra um 9 milljarðar króna.
Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum.
Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum.
Auk þess rekur selur félagið áburð og og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka.
Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, OrkanX og Magn.