Fyrsta niðurstaða siðanefnar Alþingi hefur nú litið dagsins ljós en nefndin telur að ummæli þingflokksformanns Pírata, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn. Þetta kemur fram í bréfi siðanefndar, stílað þann 13. maí síðastliðinn, til forsætisnefndar. Í siðanefnd sátu Jón Kristjánsson, formaður, Margrét Vala Kristjánsdóttir og Róbert H. Haraldsson.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir því við forsætisnefnd þann 10. janúar síðastliðinn að tekið væri til skoðunar hvort þingmenn Pírata Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglurnar.
Niðurstaða siðanefndar er sem fyrr segir að ummæli Þórhildar Sunnu frá 25. febrúar 2018 séu ekki í samræmi við a- og c-lið 1. mrg. 5. gr. og 7 gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Í þeim segir að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.
Siðanefnd kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að ummæli Björns Levís hafi ekki brotið í bága við siðareglurnar.
Ummæli Þórhildar Sunnu
Ummælin sem um ræðir lét Þórhildur Sunna falla í Silfrinu á RÚV þann 25. febrúar 2018 og hljóða þau svo:
„Við sjáum það að ráðherrar þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum, þingmenn þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum. Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að segja á fót rannsókn á þessum efnum.“
Eins sagði hún á Facebook-síðu sinni:
„Almenn hegningarlög innihalda heilan kafla um brot opinberra starfsmanna í starfi, þessi lög ná eftir atvikum líka yfir þingmenn og ráðherra, að ógleymdum lögum um ráðherraábyrgð. Almenningur í landinu á það skilið að ríkissaksóknari taki það föstum tökum þegar uppi er grunur um brot æðstu ráðamanna í starfi.
Tökum nokkur dæmi. Í 248. gr. almennra hegningarlaga er fjársvip refsivert.
248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum. Sé brotið framið af opinberum starfsmanni kemur það til refsiaukningar sbr. 138. gr. sönu [sic] laga.Það er því fullkomlega eðlilegt að skoða grunsamlegt akstursbókhald Ásmundar Friðrikssonar í þessu ljósi, það er fullkomlega eðlilegt í réttarríki að hann sæti rannsókn vegna þessa, rétt eins og annar sem uppvís verður að vafasamri fjársöfnun úr vösum skattgreiðenda. Það er í verkahring saksóknara að rannsaka það. Almenningur ber ekki sönnunarbyrðina hér.“
Ummæli Björns Levís
Ummæli Björns Levís sem hann birti á Facebook-síðu sinni þann 29. október 2018 sem siðanefnd þótti ekki brjóta í bága við siðareglur alþingismanna hljóða svo:
„Þann 10. okt sl. sagði Ásmundur Friðriksson: „]Píratar] er fólkið sem stendur upp í þessum sal trekk í trekk, ber upp á mann lygar, hefur sagt að ég væri þjófur, hafi stolið peningum af þinginu – og þau þurfa ekki að standa neinum reikningsskil.“ Það er ekki satt. Vissulega hefur verið talað um að rangar skráningar í akstursdagbók geti talist fjársvip [tilvísun í frétt] en enginn þingmaður Pírata hefur ásakað Ásmund um slíkt ... fyrr en núna.“
Björn Leví skrifar jafnframt á Facebook-síðu sína þann 9. nóvember 2018: „Ég skil vel að ÁSmundur sé þreyttur. Það tekur á að keyra svona mikið. Það hjálpar hins vegar ekkert að ljúga upp á forseta og skrifstofu þingsins.“
Þann 12. nóvember síðastliðinn skrifar hann: „Fyrst ég er að því, hvað er að því að saka menn um þjófnað þegar það liggja fyrir mjög góð gögn um nákvæmlega það sbr. ummæli um bílaleigubíl, ÍNN þátt og kosningabaráttu ... svo fátt eitt sé nefnt. Við skulum hafa það á hreinu að erindi minn varðar _alla_þingmenn sem hafa fengið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar. Vegna þess að skrifstofa þingsins hefur gefið út að endurgreiðslubeiðnir hafa ekki veirð skoðaðar að fullu. Forseti á að sjá til þess að þessum reglum sé fylgt og forsætisnefnd á að hafa eftirlit með því.
Hvað ásökunina varðar. Ég get sent inn erindi þar sem ég óska eftir rannsókn án þess að í því felist ásökun. Ég er ekki að segja að hann sé þjófur. Ég er að ásaka hann um þjófnað. Tvennt ólíkt.“
Eins segir hann þann 26. nóvember: „Rétt og heiðarlega fram ... eftirá. Hversu heppilegt er að „innleiðingu“ reglna um notkun bílaleigubíla lauk einmitt þegar Ásmundur var kominn á bílaleigubíl ... eftir að það var búið að vekja athygli á brotinu?“
Ásmundur taldi sjálfur að framangreind ummæli vægju alvarlega að æru hans. Eins og fyrr segir þótti siðanefnd ummæli Björns Levís ekki brjóta í bága við siðareglurnar.
Umdeildar akstursgreiðslur
Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs 2018 en þann 9. febrúar sama ár var upplýst um að hann væri sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar árið 2017. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra árið 2017 og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Ásmundur sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 þegar fjallað var um málið á sínum tíma að hann keyrði 20 til 25 þúsund kílómetra á ári til að fara í vinnu. Hann sinni auk þess kjördæmi sínu, sem sé 700 kílómetra langt, afar vel. „Það líða ekki margar helgar sem ég hef frí frá því að sinna erindum í kjördæminu, fara út á meðal fólks, mæta á allskonar uppákomur og svo eru sumrin upptekin af allskonar bæjarhátíðum,“ sagði hann.
Hann sagðist í sama viðtali fara eitt hundrað prósent eftir öllum reglum og að hann hefði aldrei fengið athugasemd frá þinginu. Hann hefði haldið nákvæma dagbók þar sem finna megi yfirlit yfir það sem hann hefur gert í hverri ferð fyrir sig og hvern hann hefði hitt. Tíðar kosningar á undanförnum árum hefði auk þess kallað á aukin ferðalög. „Reglurnar eru bara þannig að þau erindi sem ég á við kjósendur sem þingmaður það er greitt.“
Í lok nóvember síðastliðins endurgreiddi Ásmundur skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tvímælis að blanda saman ferðum mínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN.“
23,4 milljónir í endurgreiðslur frá 2013 til 2018
Samkvæmt upplýsingum um aksturskostnað þingmanna hefur Ásmundur fengið 23,4 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnað frá árinu 2013 til ársins 2018.
Mest keyrði Ásmundur árið 2014 en þá fékk hann tæpar 5,4 milljónir endurgreiddar vegna aksturskostnaðar á eigin bifreið. Árið 2015 fór hann einnig yfir 5 milljóna króna markið en þá fékk hann rétt rúmlega 5 milljónir endurgreiddar. Árið 2016 fékk hann tæpar 4,9 milljónir fyrir aksturskostnað á eigin bifreið. Lægstu greiðslurnar vegna ferðakostnaðar á eigin bifreið fékk hann árið 2013 fyrir tímabilið 2013 til 2017 en þá fékk hann tæpar 3,2 milljónir endurgreiddar.
Á síðasta ári minnkuðu endurgreiðslur Ásmundar til muna en þá voru þær rúmar 680 þúsund krónur fyrir ferðir á eigin bifreið og tæpar 1,2 milljónir fyrir ferðir með bílaleigubíl, eða samtals 1.850.000 krónur.
Mæltu með því að siðanefnd tæki málið fyrir
Í bréfi Björns Levís og Þórhildar Sunnu til forsætisnefndar, sem dagsett er 18. febrúar 2019 er vikið að samspili æruverndar samkvæmt almennum hegningarlögum og siðareglum og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn (málsmeðferðarreglur). Þar segir að forsætisnefnd geti vísað frá máli ef um er að ræða kæru um meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla. Í bréfinu er á hinn bóginn eindregið mælst til þess að forsætisnefnd vísi málinu ekki frá á þessum grundvelli.
Í þessari greinargerð þingmanna Pírata er jafnframt lögð áhersla á að litið verði til umræðunnar í heild sinni og höfð verði hliðsjón af ýmsum tengdum ummælum og upplýsingum. Í niðurstöðu siðanefndar segir að hún líti svo á að virða verði framangreind ummæli í heild sinni og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á einstök ummæli.
Lítið svigrúm til að takmarka umræðu
Í niðurstöðu siðanefndar kemur fram að málið taki til ummæla sem látin voru falla á opinberum vettvangi. Um sé að ræða ummæli þingmanna sem beindust að öðrum þingmanni. Þá segir að tjáningarfrelsi sé mikilvægt í umræðum um stjórnmál og sé lítið svigrúm til að takmarka umræðu sem telst innlegg í pólitíska eða almenna þjóðmálaumræðu. Njóti slík umræða enn meiri verndar þegar um sé að ræða kjörna fulltrúa almennings sem fara með mikilvægt trúnaðarhlutverk í samfélaginu. Að sama skapi þurfi þeir að þola harkalegri og óvægnari umræðu en aðrir.
Jafnframt kemur fram hjá siðanefnd að ummæli Þórhildar Sunnu hinn 25. febrúar 2018 verði talin hluti af almennri þjóðmálaumræðu um akstursgreiðslur þingmanna. Þau hafi fallið í umræðubætti í sjónvarpi og þar með á opinberum vettvangi. „Þórhildur Sunna er þingmaður í stjórnarandstöðu en dómstólar hafa viðurkennt að þeir kunni að njóta víðtækara tjáningarfrelsis en þeir þingmenn sem tilheyra stjórnarmeirihluta. Þá verður ekki fram hjá því litið að þingmönnum er ekki aðeins heimilt, heldur einnig iðulega skylt, að taka afstöðu til og tjá sig um mikilvæg málefni sem varða almenning. Þingmenn geta þurft að tjá sig um slík málefni með litlum eða engum fyrirvara, eins og í þessu tilviki, í viðtölum við fjölmiðla,“ segir í niðurstöðunni.
Tjáningarfrelsi takmarkast af rétti annarra
Við slíkar aðstæður telur siðanefnd að játa verði þingmönnum verulegt svigrúm við mat á því hvort tiltekin ummæli feli í sér brot á siðareglum. En siðanefnd telur tjáningarfrelsið takmarkast af rétti annarra. „Í umræddu viðtali í Silfrinu komst Þórhildur Sunna Ævarsdóttir svo að orði að uppi væri „rökstuddur grunur“ um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið að sér fé, almannafé“. Í umræðum um fundarstjórn forseta hinn 26. febrúar 2018 gagnrýndu nokkrir þingmenn Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir að nota hugtakið „rökstuddur grunur" í tengslum við Ásmund Friðriksson vegna lögfræðilegrar merkingar þess hugtaks. Í því fælist að uppi væri grunur um refsiverða háttsemi og að sá grunur styddist við eitthvað áþreifanlegt.
Í umræðunum segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að hún hafi ekki notað hugtakið í lögfræðilegri merkingu. Það kann að renna stoðum undir þá staðhæfingu að hún notaði hugtakið „rökstuddur grunur“ sjö sinnum í umræðuþættinum, þ.e. einu sinni um Ásmund Friðriksson, fjórum sinnum um fjármála- og efnahagsráðherra, einu sinni um þáverandi dómsmálaráðherra og einu sinni um öll framangreind. Í kjölfar viðtalsins í Silfrinu, og að því er virðist sem nánari útlistun á því, skrifar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Facebook-síðu sína stutta umfjöllun um almenn hegningarlög. Fram kemur að þau innihaldi kafla um brot opinberra starfsmanna í starfi og að þau nái eftir atvikum líka yfir þingmenn og ráðherra. Í dæmaskyni rekur hún sérstaklega 248. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um fjársvik. Síðar segir hún að það sé eðlilegt að skoða „grunsamlegt akstursbókhald Ásmundar Friðrikssonar í þessu ljósi, það sé fullkomlega eðlilegt í réttarríki að hann sæti rannsókn vegna þessa, rétt eins og hver annar sem uppvís verður að vafasamri fjársöfnun úr vösum skattgreiðenda".“
Umræðan einkennst af æsingi
Siðanefnd telur að notkun hugtaksins „rökstuddur grunur" um akstursgreiðslur til Ásmundar Friðrikssonar í umræddum sjónvarpsþætti geti bent til þess að umræðan hafi að einhverju leyti einkennst af æsingi fremur en málefnalegum rökum. Á móti komi að Þórhildur Sunna er þingmaður og þar með handhafi löggjafarvalds í umboði þjóðarinnar. Þá hafi þingmenn, í krafti trúnaðarstöðu sinnar í samfélaginu, aðgang að ýmsum gögnum og upplýsingum. Fullyrðing þingmanns um það að uppi sé rökstuddur grunur um að þingmaður hafi gerst sekur um refsivert brot gefi til kynna að hann búi yfir áþreifanlegum upplýsingum þar að lútandi. Að mati siðanefndar hafa slík ummæli af hálfu þingmanns annað vægi en af hálfu almennings eða jafnvel fjölmiðla. „Hér ber einnig að líta til þess að sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar borgaranna hafa þingmenn umboð kjósendanna til þess að fara með stjórn sameiginlegra sjóða ríkisins. Ásakanir um refsiverðan fjárdrátt þingmanns úr þeim sjóðum eru alvarlegar,“ segir í niðurstöðunni.
Telja órökstuddar aðdróttanir til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi
Siðanefndin telur þó siðareglur takmarkast hvorki tjáningarfrelsi þingmanna til að taka þátt í störfum þingsins og almennri stjórnmálaumræðu né stjórnarskrárvarið málfrelsi þeirra. „Úrlausn þess hvort þau ummæli sem hér um ræðir njóta verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu eða hvort um ærumeiðingarbrot er að ræða er utan starfssviðs siðanefndar. Á hinn bóginn hafa þingmenn ákveðið að hátterni þeirra, þ.m. t. samskipti þeirra og ummæli á opinberum vettvangi, skuli samræmast tilteknum siðferðislegum viðmiðum. Það er hlutverk siðanefndar að meta hvort ummælin samrýmist þeim reglum. Þingmenn hafa sett sér að rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu í öllu hátterni sínu og að kasta ekki rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess. Vert er að geta þess að rannsóknir sýna að vantraust á Alþingi beinist ekki síst að samskiptamáta þingmanna.“
Það sé mat siðanefndar að órökstuddar aðdróttanir af hálfu þingmanna um refsiverða háttsemi annarra þingmanna sé til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess. Slíkt hafi óneitanlega neikvæð áhrif á traust almennings til Alþingis. Þá telur siðanefnd ummæli af því tagi sem hér eru til umfjöllunar, er fela í sér ásökun um að viðkomandi þingmaður hafi brugðist því trúnaðarhlutverki sem þingmönnum er falið við fjárstjórnarvald Alþingis með refsiverðu broti er varðar jafnvel fangelsi, ekki í samræmi við þann ásetning þingmanna að rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika og af virðingu fyrir Alþingi, stöðu þess og störfum.