Tillaga Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir helgi. Þetta kemur fram í frétt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Í henni kemur jafnframt fram að íslenska ríkið kaupi matvæli fyrir um þrjá milljarða króna á ári og sem stórkaupandi geti það haft víðtæk áhrif á eftirspurn eftir matvælum, stuðlað að umhverfisvænum innkaupum, dregið úr kolefnisspori og eflt nýsköpun.
Vonast er til að stefnan verði fordæmisgefandi fyrir sveitarfélög og aðra. Kjarni stefnunnar er að innkaup ríkisaðila á matvælum byggi á markmiðum um sjálfbærni, góða lýðheilsu og umhverfisvitund.
Innleiðingin krefst tíma
Innkaupastefnan var unnin á vettvangi Matarauðs Íslands í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Við vinnslu stefnunnar var haft víðtækt samráð við hagaðila og drög að stefnunni voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í mars síðastliðnum.
Í innkaupastefnunni segir að innleiðing hennar krefjist tíma, fjármagns og samráðs. Sú stefna að hækkandi hlutfall matvæla uppfylli vistvæn skilyrði í opinberum innkaupum verði aðeins innleidd yfir margra ára tímabil með sífelldu samráði við fulltrúa hagaðila. Markmiðið sé að framleiðendur, birgjar/bjóðendur og innkaupastjórar matvæla hafi tíma til að aðlagast eftirspurn og kröfum sem settar eru fram í þessari innkaupastefnu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segist fagna því að ríkisstjórnin hafi samþykkt innkaupastefnu fyrir opinber innkaup matvæla sem byggir á því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum við framleiðslu, flutninga og umsýslu matvæla. „Í stefnunni er lögð áhersla á að máltíðir í mötuneytum séu í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis um mataræði og að neytendur séu upplýstir um uppruna og næringargildi matarins. Það er mín trú að stefnan muni efla íslenska matvælaframleiðslu og veita henni enn frekari tækifæri til nýsköpunar og þróunar,“ segir Kristján Þór.