Í nýju frumvarpi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um breytingar á fjölmiðlalögum, er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur, en árlegur kostnaður er metinn 520 milljónir, en fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir 350 milljónum.
Langstærstur hlutinn af heildarupphæðinni mun renna til stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Sýnar, sem skráð er á markað, Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og síðan Torgs ehf., sem gefur út Fréttablaðið.
Markmiðið með frumvarpinu er að efla hlutverk ríkisins, þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu, og styrkja rekstrarumhverfið, en í frumvarpinu felst meðal annars að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem þekkst hefur á Norðurlöndunum um árabil.
Breytingar á hlutverki eða tekjustofnum RÚV eru ekki hluti af þessu frumvarpi, en eins og kunnugt er hefur þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða tekjum af útvarpsgjaldi, verið umdeild.
Í nýja frumvarpinu er stuðningurinn tvíþættur. Annars vegar stuðning í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, en að hámarki er hann 50 milljónir króna á fjölmiðil.
Hins vegar talað um stuðning sem nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna.
Kostnaður við það er metinn um 170 milljónir, en við endurgreiðslurnar um 350 milljónir, samtals um 520 milljónir á ársgrundvelli.
Þá er einnig heimild til að veita staðbundnum miðlum álag.
Fram kemur að endurgreiðsluhæfur kostnaður sé bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf.
Lesa má frumvarpið í heild hér.