United Airlines mun hefja flug milli Newark flugvallar í New York og Íslands, hinn 7. júní næstkomandi. Frá þessu er greint á vef Túrista, en boðið verður upp á daglegar ferðir. Ferðirnar verða í boði fram til 4. október.
Bob Schumacher, framkvæmdastjóri sölusviðs United Airlines í Bretlandi, Írlandi og á Íslandi, segir að þetta sé ánægjulegur auki við þjónustu félagsins. „Flugið býður ekki aðeins viðskiptavinum okkar á Íslandi uppá þægilega komutíma í New York borg heldur einnig möguleika á tengiflugi til meira en 70 áfangastaða í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Karabíska hafinu eða Mið-Ameríku,” er haft eftir Bob Schumacher.
Óhætt er að segja að íslensk ferðaþjónusta hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum undanfarin misseri. Með falli WOW air og síðan kyrrsetningu á 737 Max vélum Boeing, hefur mikið skarð verið höggvið í flugbrúna milli Íslands og umheimsins.
Í apríl var um 18 prósent samdráttur á brottförum frá Keflavíkurflugvelli, miðað við sama mánuð í fyrra, og búast má við því að árið í ár verði nokkuð erfitt fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Mikill vöxtur í greininni undanfarin ár hefur leitt til þess að ferðaþjónusta er nú sá geiri hagkerfisins, sem skilar mestum gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið, en á undanförnum tveimur árum hafa þær verið um 43 prósent af heildinni.
Um 98 prósent allra ferðamanna sem koma til Íslands koma í gegnum Keflavíkurflugvöll, og því er mikið í húfi þegar kemur að því að fá erlend flugfélög til að fljúga hingað til lands og reyna að fylla upp í skarðið.