Íslenska ríkið hefur sent yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) beiðni um að Landsréttarmálið svokallaða verði endurskoðað, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, greindi frá þessu í umræðum um málið á Alþingi í dag.
Mbl.is greindi fyrst frá þessu á vef sínum.
Niðurstöðu yfirdeildar verður beðið og ekki frekar aðhafst í málinu, fyrr en niðurstaða liggur fyrir um hvort málið verði endurskoðað.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði um málið og hvenær það stæði til að senda beiðni um endurskoðun. Í kjölfarið upplýsti Þórdís Kolbrún um stöðu málsins.
Eins og kunnugt er tók Þórdís Kolbrún við sem dómsmálaráðherra, eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér, í kjölfarið þess að niðursta í Landsréttarmálinu lá fyrir hjá MDE.
Ísland tapaði málinu og var í niðurstöðu MDE sagt hafa brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti.
Ástæðan var sú að ólölega hefði verið staðið að skipan dómara við réttinn, en fjórar breytingar voru gerðar á lista yfir 15 umsækjendur, sem taldir voru hæfastir af sérstakri nefnd sem mat hæfi dómara.