Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent á milli mars og apríl samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands.
Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 4,7 prósent samanborið við 4,3 prósent árshækkun í mars og 5,4 prósent í apríl í fyrra.
Að teknu tilliti til verðbólgu, nemur hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu nú 1,3 prósentum undanfarið ár, en undanfarna sex mánuði hefur verðið nokkurn veginn staðið í stað.
Verðbólga mælist nú 3,3 prósent.
Nokkuð hefur hægst á fasteignamarkaði að undanförnu, eftir langt tímabil hækkana á markaði. Mest mældist hækkunin vorið 2017, en hún var þá 23,5 prósent, sem þá var með allra mesta móti á heimsvísu.
Frá þeim tíma hefur hækkunin jafnt og þétt minnkað, og er nú um 1,3 prósent að raunvirði.
Vaxtaákvörðunardagur er hjá Seðlabanka Íslands á morgun, og verður ákvörðun peningastefnunefndar kynnt klukkan 09:00, en margir búast við vaxtalækkun, ekki síst vegna þess að nokkuð hefur kólnað í hagkerfinu að undanförnu, eftir fall WOW air. Meginvextir eru nú 4,5 prósent.