„Fyrir nokkrum vikum ofbauð kunningja mínum áróður "Orkunnar okkar" á Facebook og flaggaði honum sem röngum eða óviðeigandi, eins og auðvelt er að gera við auglýsingar á þeim vettvangi. Núna rétt í þessu var Facebook að upplýsa viðkomandi um að skoðun á málinu hefði leitt í ljós að ábendingin væri réttmæt, auglýsing "Orkunnar okkar" bryti í bága við reglur Facebook og hefði því verið tekin úr birtingu. - Ég get ekki sagt að það komi mér stórkostlega á óvart.“
Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra, iðnaðar-, nýsköpunar-, ferða-, og dómsmála, á Facebook síðu sinni.
Á Facebook síðunni Orkan okkar hefur verið rekinn mikill áróður fyrir því að orkupakki 3, hinn svonefndi, verði ekki samþykktur. Um 2.400 fylgjendur eru á síðunni, en keyptar auglýsingar, þar sem skilaboðum er dreift á Facebook, hafa sést víða.
Nú hefur Facebook, í það minnsta í þessu tilviki, bannað auglýsinguna á þeim forsendum að hún sé röng eða óviðeigandi.
Þórdís Kolbrún hefur sjálf minnst á það ítrekað, líkt og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, að rangfærslum sé haldið á lofti um orkupakka 3, sem séu til þess fallnar að rugla umræðu um málið og beina umræðunni í rangan farveg.
Orkan okkar segjast vera samtök þeirra sem vilji „standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum“ eins og það er orðað á Facebook síðunni.
Samtökin voru stofnuð í október í fyrra til þess að „vekja athygli á mikilvægi orkuauðlindarinnar fyrir lífskjörin í landinu og kynna rök gegn frekari innleiðingu orkulöggjafar ESB hér á landi.“
Talsmenn Orkunnar okkar eru skráðir Birgir Örn Steingrímsson, Bjarni Jónsson, Elinóra Inga Sigurðardóttir, Erlendur Borgþórsson, Frosti Sigurjónsson, Guðni Ágústsson, Haraldur Ólafsson, Hjörleifur Guttormsson, Ingibjörg Sverrisdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Jón Kári Jónsson og Vigdís Hauksdóttir.