Þungunarrofum eftir sextándu viku hefur farið fækkandi á síðustu árum en í fyrra fóru sjö konur í þungunarof eftir sextándu viku. Þá fóru tuttugu konur í þungunarrof eftir sextándu viku árið 2014. Þungunarrofið hefur hins vegar farið fjölgandi fram að þrettándu viku, úr 901 árið 2014 í 985 á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum Landlæknisembættisins en frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Býst ekki við því að þungunarrofum fjölgi
Í nýju þungunarrofslögunum sem samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku er framkvæmdin við sama tímamark og áður en konan tekur ákvörðunina um þungunarrof sjálf í stað nefndar sérfræðinga. Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á kvennadeild, segir í samtali við Fréttablaðið að lagabreytingarnar breyti ekki miklu fyrir vinnu hennar en að það einfaldi ferlið bæði fyrir þær konur sem fara í þungunarrof og þá heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti þeim.
Hulda segist taka frumvarpinu fagnandi og segist ekki búast við því að þungunarrofum framkvæmdum eftir tólftu viku fjölgi í kjölfar frumvarpsins. „Þetta er ekkert eitthvað sem konur leita í nema að þeim finnist þær ekki eiga neina aðra leið út. Konur eru ekki að leita eftir þessu nema í mjög erfiðum kringumstæðum,“ segir Hulda.
Samkvæmt tölum landlæknis hefur þungunarrofum farið fjölgandi síðastliðin tíu ár og voru þau 1.049 á síðasta ári. Þungunarrofum eftir sextándu viku hefur hins vegar fækkað úr tuttugu árið 2014 í sjö árið 2018. Flestar þeirra kvenna sem enda meðgöngu sína eru á aldrinum 25 til 29 ára og flestar þeirra á sinni fyrstu meðgöngu.
Tölfræðin sýnir að lengri frestur eykur ekki tíðni
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, tók í svipaðan streng í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku. Svandís sagði að tölfræðin sýni að því fylgi ekki aukning í þungunarrofi ef að ramminn til að framkvæma slíkt sé lengdur. Hún benti á að tölur frá Hollandi, þar sem ramminn fyrir þungunarrof er 22 vikur, Bretlandi, þar sem ramminn er 24 vikur, og frá Kanada, þar sem enginn rammi er, styðji þetta.
„Í raun og veru þá virðist þetta hafa virkað þannig að þegar fresturinn er lengri þá virðist svo vera að tíðnin aukist ekki síðar. Það verður ekki til þess að það verði algengara að þungunarrof sé framkvæmt seint. Heldur þvert á móti,“ sagði Svandís
Svandís sagði jafnframt að verið sé að færa löggjöfina til nútímans og styrkja stöðu kvenna á sama tíma og löggjöf í ýmsum löndum í kringum okkur og sérstaklega í Bandaríkjunum er að að toga í hina áttina. „Áskorunin var ennþá meiri vegna þess að við eru ekki á frjálslyndisbylgu akkúrat núna heldur meira að vinna gegn afturhaldsbylgju.“