Meirihluti landsmanna telur að vel hafi tekist til við gerð kjarasamninga VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins, samkvæmt nýrri könnun MMR. Þegar spurt var hverjum mætti eigna heiðurinn að vel hafi tekist til við gerð samninganna svöruðu 70 prósent svarenda að stéttarfélögunum bæri að þakka. Könnun var framkvæmd dagana 11. til 13. apríl 2019.
Eldri svarendur jákvæðari gagnvart samningum
Í könnun MMR svöruðu 62 prósent að vel hafi tekist til við gerð kjarasamninga VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Alls kváðust 15 prósent telja að mjög vel hefði tekist til við gerða kjarasamninganna, 47 prósent frekar vel, 26 prósent bæði/og, 8 prósent frekar illa og 4 prósent mjög illa.
Jákvæðni gagnvart gerð nýrra kjarasamninga jókst með auknum aldri í könnuninni en 75 prósent svarenda 68 ára og eldri og 70 prósent þeirra á aldrinum 50 til 67 ára sögðu að frekar eða mjög vel hafi tekist til. Til samanburðar sögðust 56 prósent svarenda á aldrinum 30 til 49 ára og 50 prósent þeirra í yngsta aldurshópi, 18 til 29 ára.
Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segja að vel hafi tekist til við gerð kjarasamninganna, eða 65 prósent þeirra, heldur en þeir sem búa á landsbyggðinni, 55 prósent.
Stéttarfélögunum að þakka
Í könnuninni var einnig spurt hverjum eigna mætti heiðurinn af því að vel hafi tekist til við gerð samninganna. Kom í ljós að sjö af hverjum tíu, 70 prósent, telja að stéttarfélögunum beri að þakka. Þá nefnir tæpur helmingur svaranda að stjórnvöld sé að þakka og um þriðjungur nefnir Samtök atvinnulífsins.
Stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna reyndist líklegra, 84 prósent, en stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna, 49 prósent, til að eigna stéttarfélögunum, VR og/eða Eflingu, heiðurinn að nýju kjarasamningunum. Þá reyndist stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna líklegra til að eigna stjórnvöldum, alls 64 prósent, eða Samtökum atvinnulífsins, 41 prósent, heiðurinn heldur en stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna.
Þegar litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að jákvæðni í garð kjarasamninganna reyndist almennt mikil þvert á stjórnmálaskoðanir. Mest reyndist jákvæðnin á meðal stuðningsfólks Viðreisnar eða 77 prósent og Vinstri grænna 76 prósent en minnst hjá stuðningsfólki Samfylkingar, 60 prósent. Þá reyndist stuðningsfólk Miðflokksins líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segja að illa hafi tekist til við gerð samninganna eða um 13 prósent.