„Mjög mikið af þessum eftirlitsstofnunum okkar hafa verið undirfjármagnaðar alla tíð. Ég held að það sé ekki alveg óviljandi.“
Þetta er á meðal þess sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut klukkan 21:00 í kvöld.
Þar ræðir hún meðal annars stöðu íslenskra eftirlitsstofnana og vangetu þeirra til að sýna frumkvæði í rannsóknum. Þórhildur Sunna gagnrýnir meðal annars að slíkar stofnanir geti „ ekki bara tekið það upp á sitt einsdæmi að standa vörð um þessi grunnlýðræðis gildi sem við höfum.“
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Þórhildur Sunna fer einnig yfir niðurstöðu siðanefndar Alþingis frá því fyrir helgi, sem taldi að hún hefði gerst brotleg við siðareglur þingmanna með ummælum um meinta sjálftöku Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Hún segir það vera markmið Pírata að efla gagnsæi og traust á stjórnmálum. „Við erum bara sex akkúrat núna inni á þingi. Og við erum ekki alltaf vinsælustu krakkarnir á kaffistofunni. Það er svolítið erfitt að vera alltaf að slást í því ein og láta svo slá á puttana á sér þegar að kona er að gera það sem hún telur vera rétt, sem er að benda á að það sé eðlilegt að rannsaka misferli, meint misferli.“
Málfrelsi á að mati sumra að takmarkast við ,,réttar" skoðanir. Einka-samtöl hafa tapað forskeytinu, ljót orð og vondar...
Posted by Kosningar on Friday, May 17, 2019
Illa hefur gengið að ná tökum á nafnlausum áróðri í íslenskum stjórnmálum og svo virðist sem það hafi skort vilja til að taka á slíkum af fullum þunga. Þórhildur Sunna segir að hún sé ekki endilega þeirrar skoðunar að það þurfi að breyta lögum um stjórnmálaflokka til að taka á vandamálinu. Þingmenn sjálfir séu auk þess ekki best til þess fallnir að rannsaka nafnlausan áróður, tilurð hans og umfang. „Þetta ætti mögulega heima hjá Ríkisendurskoðun eða ríkisskattstjóra sem fara með framfylgdina að þessum lögum.“
Hún segir að stemmningin í kringum alla vinnu um breytingar á lögum um stjórnmálaflokka sé þannig að allir þurfi að vera sammála til að ná einhverju þar í gegn. „Annað hvort allir með, eða enginn. Framfaraskrefin hingað til, þá höfum við þurft að ná öllum saman. Það er kannski auðveldara sagt en gert að ná öllum þessum átta flokkum saman um sameiginlega afstöðu um það hvernig eigi að taka á þessu. En ég held hins vegar að það sé gríðarlega mikilvægt að gera það.“