Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hvetur fólk til þess að hafa samband við Hörpu tónlistarhúss, og óska eftir því að viðburði sem er á dagskrá í húsinu 23. maí næstkomandi, verði aflýst, en fundinum á þekktur hægri öfgamaður, Douglas Murray, að koma fram og flytja gestum boðskap sinn. Hann er þekktur fyrir sterkar skoðanir sínar á innflytjendamálum í Evrópu og andstöðu við Islam.
Ég bréfi sem Viðar hefur ritað til Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, biður hann um að viðburðinum verði aflýst, en það eru samtökin Vakur - samtök um evrópska menningu, sem standa fyrir viðburðinum.
Bréfið hefur hann birt á Facebook síðu sinni.
„Málflutningur Murrays er klæddur upp sem málefnaleg umræða, en engum dylst að um er að ræða hatursorðræðu sem ógnar öryggi fólks og á ekki heima í heilbrigðri samfélagsumræðu,“ segir Viðar.
Hann segir að viðburðurinn sé skipulagður af samtökum sem meðal annars reyndu að flytja inn Tommy Robinson. „Viðburðurinn er skipulagður af aðilum sem áður fluttu inn hægriöfgamanninn Robert Spencer, reyndu að flytja inn kynþáttahatarann Tommy Robinson og reyndu á dögunum að efna til þjálfunar í vopnaburði fyrir skoðanabræður sína. Tengingar þessara afla við hryllilega ofbeldisverknaði eru öllum kunnar,“ segir Viðar.
Hann segir að með upplýsingum og vitundarvakningu hafi tekist að afstýra mörgum viðburðum. „Ég tel það vera skyldu okkar allra að standa gegn uppgangi þessara afla. Lokamarkmið þeirra, leynt og ljóst, er ofbeldi og mannréttindabrot gegn innflytjendum. Ég vona innilega að þú fyrir hönd Hörpu aflýsir viðburðinum í nafni mannréttinda og öryggis minnihlutahópa. Það væri mikill blettur á Hörpu ef þessi viðburður yrði kveikja að ofbeldisverknaði gegn innflytjendum eða öðrum sem eiga undir högg að sækja.“