Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnnar, segir málþóf vera fjandsamlega yfirtöku á Alþingi, framkvæmd með því að toga og teygja venjur og reglur. Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í morgun.
Þingfundi á Alþingi var frestað klukkan 8:40 morgun en hann hafði þá staðið frá því klukkan hálf tvö í gær. Þingmenn Miðflokksins töluðu um þriðja orkupakkann í allan gærdag og fram til klukkan níu þegar nefndarfundir á nefndarsviði Alþingis hófust.
Þegar fundinum var frestað hafði hann staðið samfleytt í rúmar nítján klukkustundir. Síðari umræða um þriðja orkupakkann stendur enn þar sem þingmenn Miðflokksins stíga einir í ræðustól. Þingfundur hefst á ný klukkan þrjú í dag.
Guðmundur Andri segir enn fremur að málþóf sé leið til þess að láta þingræðið ekki hafa sinn gang. „Menn koma upp í ræðustól og tala en ofmælt er að kalla það ræður sem þar er flutt – miklu frekar nokkurs konar óræður. Óræða eftir óræða dynur á okkur og andsvörum er breytt í meðsvör blygðunarlaust.“
Málþóf sé afskræming á einum mikilsverðasta þætti þingræðisins, þegar kjörnir fulltrúar ólíkra sjónarmiða reifa mál og rökræða, eiga í samræðu með og á móti. Þetta sýni mikið virðingarleysi fyrir ræðustólnum og stofnuninni. „Málþóf getur verið neyðarréttur minnihluta gegn ofríki meirihluta þegar hann er ósveigjanlegur og vill ekki semja um mál sín – en hér heldur einn smáflokkur til í ræðustól Alþingis sólarhringum saman þar sem samflokksmenn röfla hver við annan í einhvers konar hópefli eða íþróttakeppni,“ skrifar þingmaðurinn.