Bára Halldórsdóttir braut gegn persónuverndarlögum þegar hún tók upp samtal þingmanna Miðflokksins á Klaustur bar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bergór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, sátu að drykkju á barnum, en Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson voru einnig á barnum. Þeir voru þá í Flokki fólksins en voru reknir úr flokknum eftir að upptökur af samræðunum birtust á vefnum, og fjölmiðlar fjölluðu um.
Samkvæmt umfjöllun RÚV var henni ekki gert að greiða sekt. Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur enn á vef Persónuverndar, en hann verður birtur á morgun, samkvæmt beiðni lögmanns Miðflokksmanna, að því er segir í umfjöllun RÚV.
Persónuvernd hefur haft Klausturmálið til umfjöllunar síðan um miðjan desember, en Miðflokksmenn settu málið strax í hendur lögmanns, Reimars Péturssonar hrl., sem hefur síðan sótt það fyrir þá fyrir dómstólum og hjá Persónuvernd.
Héraðsdómur og Landsréttur hafa hafnað kröfur Miðflokksmanna á Klaustur bar, að rannsakað verði hver hefði staðið að upptöku á staðnum. Þá hefur einnig komið fram krafa frá Miðflokksmönnum að Bára birti upplýsingar um greiðslur inn á bankareikninga, auk þess að upplýsingar um sms og fleira komi upp á yfirborðið. Bára svaraði því til að hún gæti alveg birt yfirlit um reikninga, en þá þyrftu Miðflokksmenn að gera slíkt hið sama.
Í stjórn Persónuverndar sitja Björg Thorarensen, prófessor, formaður, Aðalsteinn Jónasson, dómari við Landsrétt, varaformaður, Ólafur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður, Vilhelmína Haraldsdóttir, læknir, og Þorvarður Kári Ólafsson, fagstjóri skilríkjamála hjá Þjóðskrá Íslands.
Uppfært: Stundin hefur úrskurðinn undir höndum, og segir í umfjöllun að Persónuvernd hafi ekki séð ástæðu til að sekta Báru og að enginn „samverknaður“ hafi verið leiddur fram. Þá hafi málið leitt til umræðu um „háttsemi kjörinna fulltrúa“. Engu að síður ber Báru að eyða upptökunni og senda Persónuvernd staðfestingu á að það hafi verið gert eigi síðar en 5. janúar næstkomandi.