Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir, tveir þeirra fjögurra landsréttardómara sem hafa ekki fengið að dæma í málum frá því að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu var birt, eru á meðal umsækjenda um embætti landsréttardómara sem auglýst var fyrir skemmstu.
Á meðal umsækjenda eru einnig Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson, þrír þeirra fjögurra sem færðir voru af lista yfir dómara sem skipaðir voru í Landsrétt á sínum tíma, en hæfisnefnd hafði metið á meðal 15 hæfustu.
Alls eru umsækjendurnir átta talsins. Hinir eru Friðrik Ólafsson varaþingmaður, Guðmundur Sigurðsson prófessor og Jónas Jóhannsson lögmaður.
Ásmundur og Ragnheiður eru á meðal þeirra fjögurra dómara við Landsrétt sem hafa ekki fengið að taka þátt í dómstörfum frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi frá 12. mars síðastliðnum féll. Auk þeirra tveggja hafa Arnfríður Einarsdóttir og Jón Finnbjörnsson ekki fengið að taka þátt í störfum réttarins.
Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins kom fram að Ísland hefði brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í málinu. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti.
Ástráður og Eiríkur voru á meðal þeirra fjögurra sem urðu af dómarasæti þegar Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun fimmtán dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Tveir umsækjendanna sem metnir höfðu verið á meðal fimmtán hæfustu af hæfnisnefndinni, Ástráður og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, stefndu ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í desember að Sigríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að fara gegn áliti dómnefndarinnar.
Þeir voru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“. Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón. Íslenska ríkinu var hins vegar gert að greiða þeim miskabætur.
Ástráður var síðar skipaður dómari við héraðsdóm Reykjavíkur.
Tveir aðrir stefndu ríkinu
Tveir aðrir menn sem voru á lista dómnefndar yfir þá sem átti að skipa dómara höfðuðu ekki slík mál. Annar þeirra, Jón Höskuldsson héraðsdómari, sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og í kjölfarið höfðaði Jón mál.
Jón krafðist þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krafðist þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna.
Eiríkur Jónsson ákvað að fylgja í fótspor Jóns snemma á síðasta og stefndi ríkinu. Í lok október í fyrra komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að greiða Jóni og Eiríki bætur vegna ólögmætra athafna Sigríðar Á. Andersen við skipan dómara í Landsrétt.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jóni fjórar milljónir króna í skaðabætur, 1,1 milljón króna í miskabætur auk þess sem ríkið greiddi 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Dómurinn féllst á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki en hann þurfti að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Ríkið greiddi 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Ríkið áfrýjaði dómnum.
Sigríður segir af sér
Landsréttarmálið hefur haft ýmsar aðrar afleiðingar í för með sér. Í mars var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða birtur. Bæði Sigríður Á. Andersen og Alþingi fengu á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig.
Niðurstaðan var skýr. Í dómnum var fallist á það dómararnir fjórir sem bætt var á listann væru ólöglega skipaðir og gætu þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, þar sem ólöglega skipaðir dómarar gætu ekki tryggt réttláta málsmeðferð. Ferlið sem beitt var við skipun dómaranna við Landsrétt hafi orðið „til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“
Þessari niðurstöðu hefur verið vísað til efri deildar Mannréttindadómstólsins en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hún taki málið fyrir. Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra 13. mars 2019.