Tæplega fjögur þúsund íbúðir eru í byggingu á Íslandi í dag og tæp tvö þúsund byggingarleyfi hafa verið útgefin en bygging ekki hafin. Þetta kemur fram í nýjum gögnum Þjóðskrár Íslands um fjölda íbúða í byggingu.
Í þessum gögnum má finna upplýsingar um íbúðir þar sem búið er að gefa út byggingarleyfi. Framgangur bygginga er skráður og íbúðir flokkaðar í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er talað um útgefin byggingarleyfi, í öðru lagi íbúðir í byggingu og í þriðja lagi tilbúnar íbúðir.
Eins og gefur að skilja eru langflestar íbúðirnar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu en útgefin byggingarleyfi íbúða og fjöldi íbúða í byggingu eru þar 3.700 talsins. Næst á eftir kemur Reykjanes með 753 leyfi og íbúðir í byggingu og þar á eftir Suðurland, Vesturland og Norðurland-eystra. Gráa liturinn þýðir útgefin byggingarleyfi og sá græni fjöldi íbúða í byggingu.
Í frétt Þjóðskrár um málið kemur fram að hún hafi um árabil talið fjölda íbúða en samræmdari skráning á nýju húsnæði geri það að verkum að gögn um fjölda eigna í smíðum sé marktækari og því hægt að birta betri upplýsingar sem meðal annars innihalda herbergjafjölda og stærðir bygginga í smíðum.
„Hafa þarf í huga að fasteignir sem ekki hafa verið skráðar í fasteignaskrá af byggingarfulltrúa sveitarfélaga eru ekki að finna í þessum gögnum,“ segir í frétt Þjóðskrár.
Samkvæmt Þjóðskrá er um nýjar upplýsingar að ræða og uppfærast undirliggjandi gögn mánaðarlega.