Icelandair hefur nú uppfært flugáætlun sína fram til 15. september nk. þar sem útlit er fyrir að kyrrsetning Boeing 737 MAX flugvéla muni vara lengur en áður hafði verið áætlað.
Í tilkynningu til kauphallar segir að sætaframboð félagsins muni dragast saman um 5 prósent til viðbótar, frá 15. júlí til 15. september, frá því sem áætlað var, en áður hafði félagið tilkynnt um samdrátt upp á 2 prósent í sætaframboði.
Eins og fram hefur komið hefur félagið nú þegar tekið þrjár leiguvélar í notkun til þess að lágmarka áhrif kyrrsetningarinnar á farþega. Þessu til viðbótar er unnið að lokafrágangi samnings um leigu á einni Boeing 767-300 vél til viðbótar.
Eftir breytinguna er framboðsaukning milli ára á þessu tímabili samt sem áður 10 prósent, segir í tilkynningu.
Vinna varðandi þessar breytingar mun hefjast á næstu dögum og munu starfsmenn Icelandair hafa samband við viðkomandi farþega.
„Fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru óviss á þessu stigi, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda,“ segir í tilkynningu frá Boeing.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans fyrr í dag, hefur verið fundað í Texast í Bandaríkjunum í dag, þar sem fulltrúar flugmálayfirvalda í heiminum hafa fengið upplýsingar frá Boeing um uppfærslu á hugbúnaði í vélunum. Ekkert liggur fyrir um hvenær kyrrsetningu á vélunum verður aflétt, en bandarísk flugmálayfirvöld hafa sagt, að það verði ekki gert fyrr en öryggi vélanna sé tryggt.
Kyrrsetningin var ákveðin, eftir tvö flugslys, 29. október í fyrra í Indónesíu og 13. mars í Eþíópíu, þar sem 346 létust, allir um borð. Rannsóknir hafa beinst að MCAS kerfi í 737 Max vélunum, sem á að sporna gegn ofrisi, en lokaniðurstöður liggja ekki fyrir.
Markaðsvirði Icelandair er nú 54,3 milljarðar króna, en félagið tapaði samtals 13,5 milljörðum króna á síðustu þremur mánuðum síðasta árs og fyrstu þremur mánuðum þessa árs.