Isavia var í fullum rétti að stöðva flugvél ALC flugvélaleigunnar fyrir gjaldþrot WOW air og nota hana sem tryggingu fyrir greiðslu þeirra gjalda sem flugfélagið skuldaði fyrirtækinu.
Að þessu komst Landsréttur í dag, en greint var fyrst frá málinu á vef RÚV.
Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómstóllinn tók ekki afstöðu til þess hvort að Isavia ætti kröfu á ALC um að fyrirtækið greiddi skuldir WOW air við Isavia eða hversu stóran hluta þeirra.
Málið má rekja til falls WOW air en Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, kyrrsetti eina vél í flota félagsins, sem WOW air var með á leigu hjá ALC. Var þetta gert til að tryggja veð fyrir lendingar- og notendagjöldum, sem námu tæplega tveimur milljörðum króna.
ALC hafnði þessari greiðsluskyldu, þar sem vélin væri eign ALC en ekki WOW air, og skuld félagsins var ALC ekki viðkomandi.
Í úrskurði Landsréttar er meðal annars fjallað um leigusamning ALC við WOW air, og sagt að kyrrsetningarúrræði Isavia, hafi verið fyrir hendi þegar vélin var leigð.
Þá segir að ákvæði í samningnum beri með sér að ALC hafi talið mögulegt að Isavia gæti kyrrsett vélina, vegna skulda.
Var úrskurðurinn í héraði því staðfestur, hvað varðar heimildina til kyrrsetningar, en málskostnaður var dæmdur tvær milljónir sem ALC þarf að greiða.
Ekki er tekin afstaða til upphæða í málinu, og hversu mikið ALC þarf að greiða til að losa vélina undan kyrrsetningu, en eins og áður hefur verið greint frá, þá er mikill meiningarmunur á því milli Isavia og ALC.
Oddur Ástráðsson lögmaður ALC segir í viðtali við RÚV niðurstöðu Landsréttar koma á óvart og vera vonbrigði, en nú sér verið að meta stöðuna og næstu skref.
Dómarar í Landsrétti voru Sigurður Tómas Magnússon, Aðalsteinn Jónasson og Kristbjörg Stephensen.